Allt gekk upp í fyrsta túr hjá Páli Pálssyni

Fyrsti túrinn hjá Páli Pálssyni gengur vel.

Páll Pálsson kom úr fyrsta veiðitúr í upphafi vikunnar með 40 tonn af þorski. Blaðamaður spjallaði við Albert Högnason sem fór með til að fylgja búnaði frá Skaginn 3X úr höfn. Að sögn Alberts virkaði allur búnaður eins og best verður á kosið og áhöfnin ánægð með vinnustaðinn. Vel gekk að vinna afla og koma honum fyrir í lest og allt flæði á afla með besta móti.

Albert segir að Páll sé hörku skip með mikinn togkraft. Fyrst var prófað að draga eitt troll en síðan var slegið undir tveimur trollum. Þrátt fyrir brælu þurti aðeins að keyra vélina á 60% afli, enda togkraftur skipsins mikill. Um sex tonn voru í hvoru trolli, sem er tvöfalt það magn sem eitt troll myndi skila. Ljóst er að tvö troll geta skilað betri aflagæðum þar sem minni þrýstingur á fiskinum er í hvoru trolli fyrir sig en ef allur aflinn væri í einum poka. Einnig er ljóst að mun minni orku þarf til að veiða hvert tonn af fiski með tveimur trollun en einu, sem hefur veruleg áhrif á kolefnisspor framleiðslu Hraðfrystihússins Gunnvarar. Páll Pálson gæti verið eitt umhverfisvænasta fiskiskip flotans, með stærstu skrúfuna sem eykur orkunýtingu, og möguleika á að draga tvö troll samtímis.

Engin vafi er á að Páll Pálsson stendur undir þeim væntingum sem gerðar voru til skipsins og mun skila eigendum og áhöfn miklum verðmætum í framtíðinni.

Gunnar

DEILA