Ætla að hjóla um slóðir baskneskra hvalveiðimanna

Allir sem vilja mega hjóla með þeim. Mynd: Arturo Martinez López-Para.

Nokkrir Baskar áforma að hjóla um Vestfirði fara á slóðir samlanda sinna, skoða minjar um veru baskneskra hvalveiðamanna og kynna sögu þeirra sem voru á Íslandi á 17. öld. Þeir hafa verið í sambandi við Guðmund Hrafn Arngrímsson sem er ættaður af Ströndum og úr Bolungarvík, en hann hefur verið þeim innan handar og veit töluvert um sögu Baskanna sem voru á hvalveiðum hér við land og lentu í hrakningum en voru drepnir eftir að hafa leitað sér aðstoðar í landi.

Baskarnir munu byrja í Keflavík og ætla hjóla vestur á Ísafjörð og fara um þá staði sem Baskarnir héldu til og fara á þær slóðir sem Baskavígin voru framin. ,,Þetta er að einhverju leyti til þess að minnast þeirra sem voru drepnir í Baskavígunum. Það er nú þannig að þessi Baskadráp eru risastór söguviðburður í sögu Baska. Hvert einasta Baskabarn veit af þessum viðburði,’’ segir Guðmundur.

Árið 1615 drápu Íslendingar yfir þrjátíu baskneska hvalveiðimenn, sem höfðu lent í sjóhrakningum á Vestfjörðum. Baskavígin eru talin eitt mesta fjöldamorð Íslandssögunnar en basknesku sjómennirnir voru eltir uppi og myrtir á hroðalegan hátt.

Mynd: Arturo Martinez López-Para.

Baskarnir lögðu af stað á miðvikudagsmorgun vestur og ætla koma við meðal annars á Hólmavík, í Bjarnafirði og fara Ísafjarðardjúpið. ,,Þau vilja bara hitta sem flesta sem hafa áhuga. Svo eru þau líka að vekja athygli á þessum ferðamáta, að ferðast á hjóli,’’ segir Guðmundur. Áhugafólki um hjólreiðar er velkomið að slást í för.

Frekari lýsingu á verkefninu má sjá hér og setur Arturo Martinez meðlimur hópsins reglulega inn stöðufærslur af ferðinni inn á Facebook síðu sína.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA