Náttúrubarnahátíð um næstu helgi

Fjöldi manns var á ´Náttúrubarnanhátíðinni í fyrra. Mynd: Dagrún Ósk.

Náttúrubarnahátíð á Ströndum var haldin í fyrsta skipti síðasta sumar og nú er ætlunin að endurtaka leikinn og halda þessa afar óvenjulegu útihátíð helgina 13.-15. júlí. Á hátíðinni fá allir gestir, bæði börn og fullorðnir, kjörið tækifæri til að finna eða rækta sitt innra náttúrubarn. Það er Náttúrubarnaskólinn sem stendur fyrir hátíðinni en hann hefur verið starfræktur fjögur sumur, síðan 2015. Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum yfir sumartímann fyrir náttúrubörn á öllum aldri þar sem þau læra um náttúruna með því að sjá, snerta og upplifa.

Náttúrubarnaskólinn er starfræktur innan vébanda Sauðfjársetursins í Sævangi rétt sunnan við Hólmavík, og þar verður hátíðin haldin. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur hefur starfsheitið yfirnáttúrubarn og sér um skipulagningu hátíðarinnar. „Undirbúningurinn gengur mjög vel, þetta er allt að smella saman og við erum mjög spennt,“ segir Dagrún Ósk. „Helsta markmið hátíðarinnar er að auka þekkingu á náttúrunni og sýna hvað allir hlutir í kringum okkur eru í raun og veru merkilegir. Einnig hvernig má nýta náttúruna á skapandi á skemmtilegan hátt en jafnframt hvernig á að vernda hana, og svo auðvitað að skemmta sér saman, börn og fullorðnir“ bætir Dagrún við.

Hátíðin hefst á föstudegi með gönguferð og síðan setningarathöfn og veðurgaldri. „Mér sýnist ekki veita af að kenna fólki veðurgaldurinn. Hann hefur reynst okkur mjög vel í Náttúrubarnaskólanum og þegar fólk hefur lært hann er ekkert mál að framkvæma hann heima hjá sér þegar á þarf að halda“ segir Dagrún og hlær.

Um helgina verða svo margir fjölbreyttir viðburðir sem flétta saman skemmtun og fróðleik, til dæmis verður Hundur í óskilum með tónleika á laugardagskvöldinu, góðir gestir úr Latabæ koma á sunnudeginum og svo verður náttúrubarnakviss og vöffluhlaðborð á föstudeginum. Einnig verða smiðjur um fugla, veðrið og útieldun, hægt að fara í fjallgöngur, gönguferðir, á hestbak og í náttúrujóga. Það verða drauga- og tröllasögur í Sagnahúsinu, brúðuleikhúsið Handbendi, víkingafélagið Víðförull kemur í heimsókn og margt fleira. Aðgangseyrir að hátíðinni í heild verður 3000 kr. en hægt er að kaupa sig inn á staka daga fyrir 1500 kr. Frítt verður fyrir hátíðargesti að tjalda á Ferðaþjónustunni Kirkjuból sem er beint á móti Sauðfjársetrinu.

„Ég hvet sem flesta til að kynna sér dagskrána og koma og njóta með okkur. Ég held að þegar fólk læri að þekkja náttúruna, aukist ósjálfrátt sú virðing sem það ber fyrir henni. Náttúran er svo mikilvæg“ segir Dagrún að lokum en hægt er að kynna sér hátíðina á Facebook síðu Náttúrubarnaskólans, á natturubarnaskoli@gmail.com eða hjá Dagrúnu í síma 661-2213.

Dagskrána í heild sinni má nálgast hér.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA