Varðveitum handverkið og söguna

Ölver. Mynd: Byggðasafn Vestfjarða.

Á þessu ári eru liðnir átta áratugir síðan Ísfirðingar og Reykvíkingar héldu sjómannadaginn hátíðlegan í fyrsta skipti. Á næsta ári hófust síðan hátíðahöld í flestum verstöðvum landsins.  Mikið vatn hefir síðan runnið til sjávar og útgerðin tekið algjörum stakkaskiptum á þessu tímaskeiði.  Í sjávarútvegnum hefir orðið algjör atvinnubylting með stærri og öflugri skipum.  Þessi þróun kallar á, að við varðveitum sýnishorn af gamla hugvitinu og handverkinu í skipasmíðum og heiðrum um leið minningu þeirra, sem hönnuðu og smíðuðu gömlu trébátana.  Menningararfleifðin felst ekki eingöngu í gömlum húsum.  Hana er einnig að finna í gömlum skipum, sem mörg hver eru einstök listaverk.  Mikið hefir áunnizt í endurgerð gamalla og sögufrægra húsa á liðnum árum, en bátunum sem áratugum saman færðu björg í bú, hefir ekki verið sami sómi sýndur.  Því miður.  Margir gömlu bátanna sýna glæsilegt handverk og eru vitni um menningu og listsköpun.  Vestfirzki flotinn var byggður með hliðsjón af vályndum veðrum og sjólagi og vandaðri en víða annars staðar.  Gömlu bátarnir eiga því að vera stolt byggðarlagsins um ókomin ár.  Vestfirðingum ber skylda til að varðveita þennan fjársjóð, afkomendum sínum til fróðleiks.  Hann er hluti af menningu okkar og markar endalok langrar þróunar á þessu sviði.

Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur var framsýnn maður.  Hann fékk Jóhann Bárðarson á sínum tíma til að smíða sexæring, sem hann síðan afhenti Byggðasafni Vestfjarða með rá og reiða og öllum fargögnum.  Hann er nú varðveittur í Ösvör í Bolungavík yfir sumarmánuðina.  Á seinustu árum hefir safnið látið gera við og endurbyggja Sædísi, sem Bárður G. Tómasson teiknaði og var smíðuð í skipasmíðastöð hans í Slippnum á Torfnesi á Ísafirði árið 1938, fallegt sýnishorn af handverki hans.  Einnig nokkra minni báta, sem safnið hefir eignazt á liðnum árum.  Tveir bátar hafa því miður orðið að bíða árum saman, þar sem fjármagn hefir skort til framkvæmda.  Það eru Tóti frá Bolungavík og Örn frá Ísafirði.  Mér þykir ekki líklegt, að Byggðasafnið ráði við þetta verkefni á komandi árum miðað við fjárveitingar til safnsins á liðnum árum.  Það er ekki vansalaust og okkur Vestfirðingum ekki sæmandi að gera ekkert í málinu.  Það kann að þykja framhleypni af mér að koma með tillögu til lausnar, en læt slag standa.  Ég leyfi mér að leggja til, að Sjómannadagsráðin í Bolungavík og á Ísafirði taki þessa tvo báta í fóstur og sjái um viðgerð þeirra.  Þessir tveir bátar eru hluti af atvinnu- og menningarsögu þessara byggðarlaga.

Í byrjun liðinnar aldar fluttist Falur Jakobsson til Bolungavíkur og hóf þar bátasmíð, ásamt tveim sonum sínum, Jakobi og Sigmundi.  Þeir feðgar slitu allir barnsskónum á Hornströndum og þar munu þeir hafa lært handverkið.  Önnuðust þeir síðan alla bátasmíð fyrir Bolvíkinga í eina þrjá áratugi.  Þeir voru völundarsmiðir allir þessir feðgar.  Falur fann upp það lag sem bezt hentaði þeim aðstæðum að setja þurfti bátana í hverjum róðri.  Á floti var ekki hægt að geyma bát vegna hafnleysis í Bolungavík á þessum árum.  Bátarnir þurftu að fljóta snemma í flæðarmálinu.  Til þess að auka flotið í skutnum smíðuðu þeir feðgar báta sína með hlutfallslega viðamikinn skut og höfðu allan botn bátsins síðan, breikkuðu hann fyrr en almennt gerðist.  Falsbátar flutu því á grynnra vatni en aðrir slíkir bátar og þurftu minni ballest.  Þetta bátslag Falsfeðga létti bolvískum sjómönnum ómælt erfið við setning bátanna.  Tóti var smíðaður fyrir Kristján Kristjánsson og Einar Guðfinnsson árið 1930, alla tíð farsælt aflaskip.  Það voru Falsbátarnir sem skópu grundvöllinn að þeirri Bolungavík, sem við þekkjum í dag.  Ég trúi því að útgerðarmenn og sjómenn í Bolungavík hafi þann metnað  að vilja varðveita seinasta eintakið sem til er af þessu sérstæða bátslagi.  Ef þeir fá Einar K. Guðfinnsson og Jakob Fal Garðarsson í lið með sér trúi ég ekki, að þetta verði þrekvirki.  Þeim er báðum málið skylt.

Á Ísafirði þróaðist allt annað bátslag.  Þeir voru byggðir fyrir meiri gang, enda lengri sjósókn.  Um árabil teiknaði Eggert B. Lárusson flesta báta, sem Marzellíus Bernharðsson smíðaði.  Ágætt sýnishorn þessa bátslags er Örn ÍS 18, sem var smíðaður hjá Marzellíusi árið 1942.  Seinasti eigandi hans var Torfi Björnsson, sem stundaði rækju- og handæraveiðar á Örninni um langt árabil.  Ég trúi því að Sjómannadagsráð Ísfirðinga sé tilbúið að taka þennan bát í fóstur og koma honum í upprunalegt horf eins og Marzellíus skilaði honum.  Ekki er ólíklegt að Marzellíus Sveinbjörnsson og Jóhann Torfason séu fúsir að leggja þeim lið.  Það er ekki vanzalaust fyrir Ísfirðinga að eiga ekki eintak og bát, sem Eggert B. Lárusson teiknaði og smíðaður var í Skipasmíðastöð M. Bernharðssonar undir handleiðslu Marzellíusar á sínum tíma.  Það á að vera stolt okkar Ísfirðinga og verðugur minnisvarði um alla þá skipasmiði, sem hér störfuðu á sínum tíma.

Ég er svo bjartsýnn, að leyfa mér að vona, að hafizt verði handa við björgun þessara menningarvermæta áður en það er um seinan.  Það þolir enga bið.  Það tókst á sínum tíma að bjarga gömlu verzlunarhúsunum í Neðstakaupstað frá niðurrifi.  Nú tekur við næsta verkefni.  Munum að þetta er hluti af menningu okkar.  Gleymum því ekki.

Jón Páll Halldórsson.

DEILA