„Þakklát og stolt fyrir tilnefninguna“

Katrín Björk er stolt og þakklát fyrir tilnefningu JCI hreyfingarinnar.

Vestfirðingurinn Katrín Björk Guðjónsdóttir á Flateyri var tilnefnd til verðlauna sem framúrskarandi ungur Íslendingur. JCI (Junior Chamber International) er alþjóðleg hreyfing fyrir ungt fólk á aldrinum 18-40 ára sem hefur áhuga og metnað til að efla hæfileika sína og hafa jákvæð áhrif í kringum sig. Undirstaða starfsins er að efla einstaklinga í gegnum námskeið, verkefni og nefndarstörf og gera þá þannig hæfari til að takast á við stjórnun og ábyrgð í athafnalífi og félagsstarfi.

Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar sem veitt eru árlega af JCI Íslandi, eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. Þetta er viðurkenning og hvatning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni. Forseti Íslands afhendir verðlaunin og er verndari verkefnisins hér á landi en samtökin eru alþjóðleg. Verðlaunin eru hluti af alþjóðlegri viðurkenningu sem JCI stendur fyrir um allan heim til að vekja athygli á því sem er vel gert og einnig til að hvetja annað ungt fólk til dáða. Erlendis eru verðlaunin nefnd TOYP verðlaun sem stendur fyrir “The Outstanding Young People of the World”

JCI á alþjóðavísu byrjaði með TOYP árið 1981. Þar áður höfðu Junior Chamber Bandaríkin veitt ungu framúrskarandi fólki verðlaunin síðan 1939. Á meðal þeirra sem hlotið hafa verðlaunin eru Elvis Presley, John F. Kennedy, Bruce Lee, Sammy Sosa, Jackie Chan og fleiri.

Katrín Björk segir að hún hafi í fyrstu haldið tilnefningunni sem leyndarmáli og sagt bara sínum nánustu frá henni. Aðsend mynd.

Katrín Björk segir að hafa átt erfitt með að trúa því fyrst þegar hún heyrði af tilnefningunni. „Þegar ég fékk tölvupóstinn frá JCI hreyfingunni um að ég væri tilnefnd til verðlauna sem framúrskarandi ungur Íslendingur, þá trúði ég því ekki að ég væri tilnefnd. Hvernig getur staðið á því að ég sé tilnefnd, ég sem er svo vanmáttug, sit í hjólastól og get ekki talað ,,venjulega“, en ég tala með því að stafa á spjaldi og geng með stuðningi.“

Katrín segist í samtali við blaðamann BB vera stolt og glöð af því að einhverjir kunni að meta bloggið hennar (katrinbjorkgudjons.com). Hún segist fyrstu dagana á eftir hafa sagt bara sínum nánustu vinum og ættingjum frá tilnefningunni og viljað hafa þetta leyndarmál því hún hafi verið hálf feimin við þessa tilnefningu. „Þetta er svo hátíðleg tilnefning. En ég var því miður ekki á landinu þegar athöfnin fór fram og tók unnusti minn við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu. Ég er mjög þakklát og stolt að vera í þessum hóp en við vorum 10 tilnefnd.“ segir Katrín Björk að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA