Sjávarútvegsmótaröðin í golfi að hefjast

Golfarar fjær og nær eru hvattir til að mæta í skemmtilega keppni og njóta fegurðar í vestfirskri náttúru.

Á laugardaginn 30. júní verður Arnarlaxmótið í golfi haldið á Litlueyrarvelli á Bíldudal. Mótið markar upphaf Sjávarútvegsmótaraðar í golfi sem haldið er árlega á Vestfjörðum.

Á sunnudaginn verður síðan næsta keppni mótaraðarinnar, Oddamótið sem haldið verður á Vesturbotnavelli 1. júlí. Á báðum mótunum verður keppt í höggleik án forgjafar og punktakeppni.

Það eru sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum (Sjávarútvegsklasi Vestfjarða) sem standa á bak við mótaröðina og verður síðar keppt í Bolungarvík og í Tungudal. Vegleg verðlaun eru í boði og teiggjafir fyrir þá sem mæta á réttum tíma á teig. Fiskvinnslan Oddi býður keppendum upp á súpu eftir níu holur í klúbbhúsinu í Vesturbotni. Arnarlax býður keppendum upp á grill á veitingastaðnum Vegamótum á Bíldudal að lokinni verðlauna afhendingu.

Gunnar

DEILA