Samstöðumótmæli á Silfurtorgi í dag

Samstöðumótmæli verða á Silfurtorgi kl 17.

Í dag klukkan 17 ætlar fólk að hittast á Austurvelli í Reykjavík með kerti og mótmælaspjöld og ganga þaðan að bandaríska sendiráðinu, til að krefjast þess að að mannúðlega sé komið fram við flóttafólk allsstaðar.
Samskonar mótmælafundur verður haldinn á Silfurtorgi á Ísafirði klukkan 17, þar sem krafist verður þess að Bandaríkin skrifi undir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Einungis Norður-Kórea og Erítrea hafa ekki skrifað undir, að Bandaríkjunum undanskildum, eins og segir á viðburðinum. Þar kemur jafnframt fram: „Við krefjumst þess líka að þau ríki sem skrifað hafa undir sáttmálann, fullgildi hann og virði. Að lönd eins og Ísland, Ítalía eða Danmörk, svo dæmi séu nefnd, verndi börn frekar en að vísa þeim á brott.“

Á viðburðarlýsingunni í Reykjavík stendur enn fremur: „Við göngum fyrir mannúðlegri og opnari heimi. Þar sem manneskjur eru manneskjur óháð þjóðerni. Við lokum ekki börn í búrum. Gangan er ekki bara mótmæli gegn ómannúðlegri stefnu Bandaríkjanna gagnvart flóttafólki frá Suður-Ameríku. Gangan er meðmæli með mannúðlegri stefnu í bæði Bandaríkjunum og Evrópu. Á Ítalíu hefur björgunarskipum verið bannað að koma til hafnar, á Grikklandi eru flóttamannabúðir handan við grindverk. Þetta er alþjóðlegt vandamál sem við sem land í Schengen þurfum líka að axla ábyrgð á.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA