„Okkar vilji að það séu trúverðug gögn sem koma útúr þessu“

Ákvörðun um hvaða leið verði farin við gerð vegar í Gufudalssveit mun liggja fyrir í október að sögn sveitarstjóra Reykhólahrepps. Mynd: Julie Gasiglia

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur fengið svar frá Skipulagsstofnun um að hægt sé að auglýsa aðalskipulagsbreytingu vegna vegagerðar um Gufudalssveit. Í næstu viku verður kynnt á opnum íbúafundi lokaskýrsla vegna óháðrar rýni sem unnin var í Noregi varðandi skipulagsbreytinguna. Fráfarandi sveitarstjóri, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir segir í samtali við BB að það verði að koma í ljós hvort áframhald að vinnunni varðandi aðalskipulagsbreytinguna muni byggjast á þeirri skýrslu.

Ný sveitarstjórn er að taka við þessa dagana og staðfesti Ingibjörg Birna við BB að hún muni ekki halda áfram sem sveitarstjóri. Staðan verður auglýst fljótlega að sögn hennar en búið er að skipa í nefndir og ráð í sveitarfélaginu. Sveitastjórnin endur-nýjast nánast alveg, það er aðeins Karl Kristjánsson sem situr áfram. Aðrir meðlimir sveitarstjórnar Reykhólahrepps á kjörtímabilinu 2018 til ársins 2022 eru Ingimar Ingimarsson oddviti, Árný Huld Haraldsdóttir varaoddviti og Embla Dögg B. Jóhannesdóttir.

Aðspurð um þá gagnrýni sem heyrst hefur um að þessi óháða rýni hafi verið unnin með aðkomu auðmanna segir Ingibjörg að sveitarstjórnin ráði þessu að öllu leyti og þetta sé unnið á þeirra forsendum. „Það var þeginn styrkur til að vinna þessa rýni og kemur hann inn til sveitarfélagsins. En við erum að greiða fyrir þetta og við ráðum þessu algjörlega. Þessir aðilar sem greiddu styrkinn koma ekkert meira inn í þetta ferli. Við erum sem sagt að gera þetta á okkar forsendum og það er okkar vilji að það séu trúverðug gögn sem koma út úr þessu.“ segir Ingibjörg Birna að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA