Margt að gerast í Raggagarði – Bogga auglýsir eftir rekavið

Unnið að gróðursetningu rekaviðarskógarins. Á myndinni eru: Vilborg Arnardóttir, Sigurdís Samúelsdóttir, Barði Ingibjartsson og Halldór Már Þórisson á gröfunni. Mynd: Vilborg Arnardóttir.

Mikið hefur verið í gangi í Raggagarði í Súðavík upp á síðkastið en Vilborg (Bogga í Súðavík) segir að garðurinn sé staður fyrir ánægjulegar samverustundir með börnum okkar og barnabörnum þar sem öll fjölskyldan getur skemmt sér saman í skemmtilegu umhverfi. Þar er hægt að grilla, leika sér og margt annað. Nú hefur þar bæst við grjótaþorp, rekaviðaskógur, álfasteinn, dvergasteinn, listaverk eftir Gerði Gunnarsdóttur og fleira. Vilborgu vantar þó aðstoð við að klára rekaviðarskóginn.

Vilborg Arnarsdóttir er framkvæmdarstjóri Raggagarðs. Hún bjó í Súðavík á árunum 1995-2013 en fluttist þá til Akureyrar. Þrátt fyrir það koma hún og eiginmaður hennar öll sumur og vinna í Raggagarði. Vinna hennar þar er sjálfboðaliðastarf og hefur efniviður verið fenginn frá styrktaraðilum og vinnuafl fengið frá heimamönnum, sumarbúum og gestum á öllum aldri. Nýlega komu vinnuskólarnir í Bolungarvík, Ísafirði og Súðavík og unnu á svæðinu.

Upp á síðkastið hefur bæst töluvert við Raggagarð. Leiksvæðið er á sínum stað en ýmislegt annað finnst þar líka. ,,Það er margt skemmtilegt að skoða í Raggagarði. Það er kominn álfasteinn sem vegagerðin útvegaði okkur frá Súðavíkurhlíðinni. Svo gerðu krakkarnir í Súðavík grjótaþorp, eins og í gamla daga. Þá er steinum raðað upp og máluð hús á þá og myndað einskonar grjótaþorp. Svo er auðvitað Rekaviðaskógurinn og sviðið sem er bátur, en hvorug tveggja eru hugmyndir Sigurðar Friðgeirs Friðrikssonar landslagsarkitekts,’’ segir Vilborg.

Auglýsir eftir rekavið og listaverkum
,,Þessi skógur er sérstakur fyrir það að þetta er eini rekaviðarskógurinn á landinu. En það vantar nokkra rekaviðardrumba í skóginn svo að hægt sé að klára hann,’’ segir Vilborg. Vilborg biður þess vegna fólk sem gæti hugsanlega ferjað slíka frá t.d. Hornströndum, að hafa samband við hana, en drumbarnir þurfa að vera að minnsta kosti 3,5 metrar á hæð. ,,Einnig er pláss fyrir listaverk hér. Ef einhver listamaður er með listaverk úr náttúruefnum sem gæti passað inn í náttúrulegt Raggagarðs má sá hinn sami einnig hafa samband,’’ Segir Vilborg. Síminn hjá Vilborgu er 8234566, einnig má hafa samband í gegnum email: raggagardur@simnet.is

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA