LAX – LAX – LAX

Villtur lax. Mynd: Þorleifur.

Laxeldi er nú mjög rætt á Vestfjörðum. Menn segja aðstæður góðar hér, aðrar og verri í Noregi. Þar hafi kvíar verið við helstu laxárósa en ekki hér, en nú sé búið að bæta úr og allt komið í lag. Þá munu ekki vera grónir laxastofnar við Vestfirði, það breytir miklu um hættuna af sleppilaxi. En þetta mál er hluti af stóru myndinni, sem margir loka augunum fyrir, enda óhugnaleg. Ég hef nú í 12 ár dvalist meira þar en hér og fylgst með baráttu frænda vorra við þessa vá. Það er einfald.ega lygi að hana sé búið að uppræta. Ég hef farið mjög víða og alla leið norður í Kirkenes. Vafalítið eru og voru kvíar við árósa, þótt ég hafi engar séð, en úr flugvél og ferjum sjást kvíar úti um allan skerjagarð. Í NRK hafa verið fræðsluþættir um vána af völdum kvíalaxins. Þar er myndin önnur en trúboðar hér birta. Talað við fræðinga sem enn eru að „lækna“ árnar eftir hann. Ekki bara vegna virkjunarglæpsins í Altaánni. Einn t.d. stóð úti í á með gildrur að veiða kvíafiskinn. Hans mynd var skýr:

Laxinn kemur úr hrogni á ákveðum gotstað, þroskast nokkuð, hverfur síðan út í haf. Kemur aftur fullvaxinn, í sömu ána og á staðinn þar sem hann kom úr hrogni, gýtur og frjóvgar. Þetta hefur hans ætt gert í þúsundir ára og genamengi hans er aðlagað ánni. Orð mannsins stönguðust á við orð þeirra sem segja genamengi kvía- og göngulaxa sama. Ekki er ég dómbær, bara málfræðingur, en sá norski sagði mengin ólík.

Sloppinn kvíalax gengi a.m.k. að hluta upp í árnar. Hann væri árásargjarnari en heimalaxinn og eyddi honum, en gæti blandast honum. En hann er ekki vanur ánni og hún eyðir honum, sagði maðurinn. Áin deyr. Menn hafa unnið að því áratugum saman að eyða öllum hans genum úr ánni. Hann sýndi hvernig þeir þekkja hann og blendinga af honum. Munur væri á uggunum.

Lúsin er sér á parti. Þar yrði að eyða öllum laxi úr ánni og hvíla hana árum saman, rækta síðan nýjan stofn. Lúsin er hreint ekki meinlítil. Þetta ferli getur tekið áratugi og milljónir króna á milljónir ofan. Auðvitað greiðast þær af almannafénu okkar, meðan „athafnamennirnir“ hirða gróðann. En við kjósum sprellikallana þeirra meðan höfin deyja og hálft mannkynið sveltur og flosnar upp. Það er langmest sök gróðafíknar og sinnuleysis okkar á Vesturlöndunum ríku. Og myndin er miklu stærri.

Frá fyrsta augnabliki hverrar lífveru jarðinnar berst hún fyrir lífi sínu og einkum við aðrar lífverur, þar étur hver annan. Sumar eru bæði einstaklingar og hópverur, sem fylgja þá helst þeim sterkasta, líkt og aparnir, þar sem maðurinn trónir efst og er langgreindastur. Hins vegar skortir hann skynsemina til að nýta þessa greind. Hann hamast við að eyðileggja búsvæði sitt. Sumar verur gera það, svo sem bjórinn, en hann flytur þá í aðra á, kemur aftur þegar fyrra svæðið er gróið. En við höfum bara enga aðra á að flýja í! Fólk sem þorir að hugsa horfist þó æ meir í augu við þá miklu vá sem mannkyni stafar af þessu þjóðfélagi blekkinga og gróðafíknar, sem er að breyta jörðinni í sorphaug og hafinu í drullupoll. Fjöldi dýrategunda er í útrýmingarhættu, svo og lífsnauðsynleg skógflæmi. Laxarækt í sjálfu sér jákvæð, en hvað með að hugsa og fara varlega?

Við tölum um að fljóta sofandi að feigðarósi. En við fljótum sko ekki, við keyrum glaðvakandi á fullu niður að fossinum, á stærsta spíttbátnum með sístærri mótor.

Við erum ekki í góðum málum, en segjum kannski bara líkt og séra Sigvaldi í Manni og konu þegar hann missti gróðatökin: „Ætli nú sé ekki kominn tími til að biðja guð að hjálpa sér!“ Jóna fóstra mín á Horni og mamma sögðu þetta stundum og hlógu. Hlæjum við?

Eyvindur P. Eiríksson, Hornstrendingur og fv. lektor.

DEILA