Körfuboltabúðir Vestra haldnar í tíunda skiptið

Barna- og unglingastarfið í Vestra er mjög öflugt. Mynd: Vestri

Körfuboltabúðir Vestra eru í þann mund að hefjast og verður þetta í tíunda skiptið sem búðirnar fara fram. Hingað til hafa búðirnar eingöngu farið fram í íþróttahúsinu á Torfnesi en til að mæta mikilli aðsókn verður íþróttaaðstaðan í Bolungarvík nú nýtt í fyrsta sinn. Rútuferðir verða á milli húsanna fyrir iðkendur. Ekki er verra að hafa tvö stór íþróttahúsnæði undir starfsemina og gott inni hjá nágrönnum okkar Bolvíkingum. Hver veit nema að þessar búðir eigi eftir að fara fram víðar á svæðinu ef eftirspurnin heldur áfram að aukast en nýtt met í iðkendafjölda er slegið á hverju ári.  Körfuboltabúðir Vestra hlutu hvatningarverðlaun Ísafjarðarbæjar í fyrra og er greinilegt að um gott og metnaðarfullt starf er að ræða.

Körfuboltabúðirnar eru ætlaðar 10-16 ára iðkendum og uppselt er í búðirnar sjálfar en samhliða þeim verður boðið upp á grunnbúðir fyrir börn fædd 2009 – 2011, þar er ennþá pláss fyrir nýja keppendur. Grunnbúðirnar fara fram í íþróttahúsinu við Austurveg dagana 7.-9. Júní, þar verða grunnatriði körfuboltans kennd þeim ungu iðkendum sem vilja og síðasta daginn er endað á heimsókn í stóru búðirnar, eflaust til að kveikja áhuga þeirra minni fyrir því að taka þátt seinna meir.

Aldrei hafa fleiri iðkendur verið skráðir og eru 180 skráðir til leiks og enn margir á biðlista í stóru búðirnar, en einnig taka 20-30 yngri iðkendur þátt í grunnbúðunum. Um það bil þriðjungur iðkenda eru krakkar að vestan en stærsti hluti iðkenda kemur frá íþróttafélögum víðsvegar um land allt. Stór hópur foreldra og forráðamanna fylgja oftast krökkunum og nota jafnvel tækifærið til að koma vestur í frí. Einnig eru þeir sem mæta sjálfir en boðið er upp á gistingu í heimavistinni hjá menntaskólanum fyrir iðkendur. Þar verður einnig eldaður matur ofan í mannskapinn alla dagana svo að iðkendurnir sem og þjálfarar hafi orku til að endast alla þessa löngu og ströngu æfingaviku.  Mötuneyti skólans, sem rekið er af búðunum, mun þjóna hátt á þriðja hundrað manns alla daga búðanna.

Iðkendum verður skipt upp í mismunandi æfingahópa eftir getu og aldri. Krakkarnir munu hafa nóg að gera, því að eins og skipulag þeirra bendir til er fjölbreytt dagskrá í boði. Samsetning æfinganna er margþætt og verður áhersla lögð á ýmsa þætti sem vart er að huga að í körfuknattleik. Þar má helst nefna einstaklingsmiðaðar æfingar, hópaæfingar, fyrirlestrar, stöðvaþjálfun sem og fleira.

Körfuboltabúðirnar gætu auðvitað ekki farið fram án gífurlegs mikils undirbúnings og skipulagningar en í framkvæmdarstjórn búðanna sitja níu manns, sem allir leggja sitt af mörkum við undirbúning. Einnig er ávallt mikill fjöldi sjálfboðaliða sem sinna hinum ýmsu verkefnum tengdum búðunum.

Ein aðaláherslan liggur alltaf í því að bjóða upp á þjálfun í hæsta gæðaflokki og er þjálfarateymið í ár ekki af verri gerðinni. Yfirþjálfari búðanna annað árið í röð er Ingi Þór Steinþórsson, margfaldur íslandsmeistari og yfirþjálfari Snæfells. Honum innan handar verða 10 aðalþjálfarar og 8 aðstoðarþjálfarar, sem skiptast á að þjálfa iðkendurna eftir því hvaða tækniatriði er verið að leggja áherslu á. Alla morgna er einnig svokölluð stöðvaþjálfun þar sem þjálfarar skipta með sér verkum og þjálfa iðkendur í þeim atriðum sem þeir eru fróðastir um, hvort sem það sé sóknarleikur, varnarleikur eða önnur ákveðin tækniatriði. Í hinu öfluga þjálfarateymi ársins eru þjálfarar frá hinum ýmsu stöðum, þar má nefna Bandaríkjunum, Spáni, Serbíu og auðvitað Íslandi.

Búðunum lýkur með veglegri kvöldvöku á laugardagskvöld eins og hefð er fyrir og halda svo flestir iðkendur heim á sunnudag með bros á vör og góða æfingaviku að baki. Búðirnar fagna eins og áður var nefnt tíu ára afmæli í ár og eru stærstu búðir sinnar tegundar á landinu.

Hægt verður að fylgjast með fréttum og myndum úr búðunum á Facebook síðu sem nefnist Körfuboltabúðir Vestra.

Ingimar Aron

ingirmararon@gmail.com

DEILA