Keyrið varlega á Seljalandsvegi!

Ísafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Eins og margir hafa tekið eftir þá er verið að malbika á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði. Ekki þarf að kvarta undan umferðarstýringu hjá malbikunarstarfsmönnum, en þeir standa sig með stakri prýði. Aftur á móti hafa komið fram kvartanir og fólk hefur lýst yfir áhyggjum sínum varðandi mikinn umferðarhraða á Seljalandsvegi en þangað er bílunum beint á meðan Brautin er lokuð. Lögreglan á Vestfjörðum fékk fyrirspurn um það hvort hún myndi auka eftirlit á Seljalandsvegi og þeirra svar var að umferðareftirlit þar yrði eins ofarlega á forgangslista og mögulegt væri.

Foreldrar hafa áhyggjur af börnum sínum sem eru mörg þarna í kring og eiga töluvert oft leið nálægt veginum. Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni mun verða malbikað í dag og á morgun svo bílstjórar ættu að muna að keyra varlega á Seljalandsvegi á meðan að þessu stendur, og jafnvel eftir það líka.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA