Hundur glefsaði í póstinn

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum segir að 21 ökumaður hafi verið kærður fyrir að aka of hratt í síðustu viku. Flestir voru stoppaðir í Strandasýslu en nokkrir í Ísafirði. Sjómannadagshelgin fór að mestu friðsamlega fram en skemmtanir voru víða haldnar. Þó fékk einn einstaklingur á Ísafirði gistingu í fangaklefa aðfaranótt 3. júní. Sá var handtekinn í miðbæ Ísafjarðar, ölvaður og æstur og talinn hættulegur sjálfum sér og öðrum.

Þá var ökumaður stöðvaður á Barðastrandarvegi, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Í vikunni barst svo lögreglu tilkynning um hund sem glefsaði í póstburðarmann við útidyr heimilis á Ísafirði. Hundurinn var bundinn í garði heimilis síns en taumurinn var nógu langur til þess að hundinum tókst að hlaupa að póstinum og glefsa í starfsmanninn. Sá hlaut minniháttar sár á hendi við glefsið.

Lögreglan skrifar enn fremur að nú sé tíðarfar orðið með þeim hætti að enginn ætti að þurfa að aka um á negldum dekkjum.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

DEILA