Halla opnaði Hjallinn á 17. júní

Búið er að taka hjallinn í gegn og lítur hann virkilega vel út í dag. Mynd: Julie Gasiglia.

Þann 17. júní síðastliðin var formleg opnun á hjallinum sem stendur við Messíönuhús. Hjallurinn stendur á horni Sundstrætis og Þvergötu í Ísafjarðarbæ. Það er hún Halla Ólafsdóttir sem hefur svo sannarlega tekið hjallinn í gegn en það er óhætt að segja að hann hafi verið í niðurníslu í langan tíma. Fólki gafst kostur á að skoða hjallinn þennan dag og upplýsti Halla Mía fólk um sögu hans og tilgang í gegnum árin. Einnig var í rýminu lítil sýning, einskonar útibú frá Byggðasafninu þennan dag. Hjallurinn er merkilegur fyrir þær sakir að hann var ekki bara hjallur heldur líka fjós, búr, veiðarfærageymsla og beitningarskúr.

Það var afar fallegt veður þennan daginn og margt fólk kíkti við í kaffi og gómsætt meðlæti hjá Höllu. Skúli mennski flutti nokkur lög, Villi Valli kom á hjólinu með harmónikkuna og spilaði við góðar undirtektir fullorðna sem barna sem stigu dans við undirleikinn. Það er óhætt að segja að þetta framtak sé glæsilegt og fögnum við því. Við leyfum myndunum að tala sínu máli.

Rauðmagi í hjallinum. Mynd: Julie Gasiglia.
Halla og Óskar á lýðveldisdaginn. Mynd: Julie Gasiglia.
Vel var mætt, gómsætar veitingar á boðstólnum, gott veður og stiginn dans. Mynd: Julie Gasiglia.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA