Halla Mía tók þátt í skiptiprógrammi í Berlín fyrir blaðamenn

Halla Mía í hádegishléi frá starfi sínu í Berlín. Mynd: Halla Mía.

Halla Mía er Vestfirðingum kær, enda er hún dugleg við að koma fréttum þaðan á framfæri í Ríkisútvarpinu og sjónvarpi. Hún flutti vestur á Ísafjörð haustið 2015 til að taka við starfi fréttamanns fyrir RÚV á svæðinu og hefur verið hérna síðan. Hún er nýkomin heim aftur eftir að hafa dvalist í Berlín í margar vikur í skiptiprógrammi fyrir blaðamenn svo Vestfirðingar ættu að hafa tekið eftir því að fréttum héðan er að fjölga aftur á landsmiðlinum.

Halla Mía er alin upp í Árbænum í Reykjavík sem var eins og sveit í borg á uppvaxtarárum hennar. Hún var með drullubú í móunum eða húsagrunnum og eins og hún segir sjálf; „ég smíðaði kofa og veiddi síli í Rauðavatni, klifraði í trjánum og tíndi ber í móunum í kring.“ Þó svo að móar og einvera hafi alltaf heillað hana þá togast andstæðurnar á. Halla Mía bjó nefnilega og lærði í Berlín í þrjú ár eftir að hafa útskrifast úr íslensku og ritlist frá Háskóla Íslands. „Ég fór í meistaranám til Berlínar þar sem ég lærði sjónræna- og fjölmiðlamannfræði í Freie Universitaet. Ég togaðist svo óvart heim, fór heim til að vinna á hálendinu og ætlaði svo aftur út en það varð ekkert úr því.“
Hún vann að nokkrum verkefnum í Reykjavík eftir hálendisdvölina og þar á meðal að mynd sinni „Á sama báti“ sem sýnd var á RÚV í janúar. Eftir það lá leiðin aftur upp á hálendi og svo vestur. En BB fýsti að vita hvernig væri að vinna fyrir Ríkisútvarpið á svona litlum stað og sem eini starfsmaðurinn?

„Ég vann ein á hálendinu tvö sumur, í Hvannalindum. Þaðan var 40 mínútna akstur í næstu starfsstöð og því var ég bara þarna ein með gæsunum og einstaka ferðamanni. Þótt ég hafi aldrei upplifað mig eina eða einmana þá lofaði ég sjálfri mér að vinna næst með fólki, eða allavega fleira fólki en gæsum. Ég stóð hins vegar ekki við það loforð þegar ég svo réð mig á eins manns starfsstöð RÚV á Ísafirði. Sem betur fer þá vinnur Jóhannes Jónsson stundum með mér í sjónvarpsvinnslu og nokkrir hafa vinnuaðstöðu í húsinu, en að öðru leyti er ég mikið ein á báti. Það er krefjandi að geta ekki spurt einhvern á næsta borði um álit á nálgun eða bara fyrirsögn. Það venst þó alveg, ótrúlegt en satt, og starfið gengur betur því sjálfstæðari sem ég verð. Ég get einnig leitað til félaga minna í Efstaleiti og fyrir norðan en flestir hafa nóg á sinni könnu.“

„Fréttamat getur jafnframt verið krefjandi. Það hefur reynst mér vel að vera utanaðkomandi en ég finn fljótt að hvað það er mikilvægt að skerpa gestsaugað því ég verð fljótt samdauna umhverfinu. Þá gerist það líka, vegna þess að ég er utanaðkomandi, að ég veit hreinlega ekki að eitthvað er frétt því ég veit ekki hvenær eitthvað er frávik frá því hefðbundna, það lærist þó. Ég hvet því fólk til að heyra í mér og vera duglegt að láta mig vita ef það lumar á fréttnæmu efni. En svo má þó ekki gleyma því að hlutverk fréttamanna er ekki að vera almannatenglar eða upplýsingafulltrúar fyrir ákveðna landshluta og á endanum er það fréttagildið sem fær að ráða,“ segir Halla Mía.

Eins og áður segir hefur Halla dvalið undanfarnar vikur í skiptiprógrammi í Berlín sem er á vegum samtakanna IJP, International Journalist Program. Hún tók þátt í þeim hluta prógrammsins sem snýr að Þýskalandi og Norðurlöndunum en þar geta starfandi blaðamenn farið til annarra landa og unnið á fjölmiðlum á Norðurlöndum eða í Þýskalandi. „Markmiðið er að fjölmiðlafólk fái að kynnast bæði öðrum fjölmiðlum í öðrum löndum, aðstöðu og vinnubrögðum en myndi líka tengsl við aðra í sama fagi. Þetta getur oft verið upphafið af starfi fólks sem fréttaritarar og öðru. Verkefnið hófst með kynningarhelgi í Osló og lauk með lokahelgi í Berlín sem voru notaðar til að hópurinn kynntist en einnig til að miðla og deila okkar reynslu og upplifun.“

„Þess á milli hef ég starfað fyrir Deutsche Welle í Berlin í sjónvarpsþætti sem heitir Euromax og fjallar um lífstíl og menningu víðsvegar um Evrópu. Það er frábært að skipta um umhverfi og sjá hlutina í öðru samhengi. Og ekki síður að læra inn á vinnubrögð annarra, sérstaklega í ljósi þess að á Ísafirði hef ég þurft að vera minn eigin kennari og oft þurft að finna leiðina að útkomunni á eigin spýtur, sem getur stundum verið óþarflega löng,“ segir Halla Mía að lokum.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA