Grunnskólinn á Drangsnesi fékk úthlutað úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar

Marta Guðrún Jóhannesdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Drangsnesi.

Grunnskólinn á Drangsnesi var einn af þeim þrjátíu skólum sem fengu styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar. Heildarúthlutun sjóðsins fyrir árið 2018 er 4.100.000 í formi fjárstyrkja og 4.550.000 í formi tölvubúnaðar. Styrkurinn skal nýttur í að þjálfa kennara til að búa betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur og tilgangur sjóðsins er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Með styrknum skuldbinda skólarnir sig til að hafa forritun sem hluta af námskrá skólans í að minnsta kosti tvö ár. Markmiðið með sjóðnum er líka að stuðla að aukinni fræðslu og auka áhuga barna og unglinga á forritun og tækni. „Það er ljóst að það er mikilvægt í skólastarfi að efla forritunarkunnáttu skólabarna enda byggja þær tækniframfarir sem eru að eiga sér stað núna á stafrænum grunni sem tengir ýmsa tækni saman og mun hafa áhrif á fyritæki og samfélög til lengri tíma,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður Forritara framtíðarinnar.

Hollvinir sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Advania, KOM,WebMo og Menntamálaráðuneytið. Í stjórn sitja Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar, Bjarki Snær Bragason deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri, Elsa Ágústsdóttir forstöðumaður markaðsmála hjá RB, Friðrik Guðjón Guðnason forstöðumaður hjá Landsbankanum og Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP sem er einnig formaður stjórnar.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA