Golfhátíð á Ísafirði

Frá afmælismóti Golfklúbbs Ísafjarðar sumarið 2018.

Afmælismót Golfklúbbs Ísafjarðar var haldið í dag, laugardag. Fjöldi þátttakenda mættu til leiks og voru fyrstu níu holurnar spilaðar fyrir hádegi. Þá var tekið hlé til að horfa á landsleik Íslands gegn Argentínu í klúbbhúsinu.

Að leik loknum var haldið á og mótið klárað en mikil afmælishátíð verður í skálanum í kvöld. Þar verða afhent mjög vegleg verðlaun úr afmælismótinu. Helstu styrktaraðilar mótsins eru Hótel Ísafjörður, Heimsferðir, Hertz, Tjöruhúsið, 66°N og N1.

Það er alltaf gaman að koma saman í skemmtilegri keppni, en mest er þó gaman að brottfluttir golfarar sæki okkur heim í tilefni afmælisins. Sumir þeirra mættu í hátíðarbúningum golfara að skoskum sið. Í gær var haldið Ryder golfmót þar sem heimamenn kepptu við brottfluttra, með sigri heimamanna.

Golfklúbbur Ísafjarðar var stofnaður að vori 1943, og átti stjórn GSÍ hlut að máli og var aðalhvatamaður að stofnun klúbbsins Baldur Johnsen héraðslæknir. Stofnfélagar voru 20 og var Baldur kjörinn formaður.  Fyrir tilhlutan stjórnar GSÍ fór golfkennarinn Robert Waare til Ísafjarðar og kenndi þar um hálfsmánaðarskeið. Síðar fór hann aftur til Ísafjarðar ásamt forseta sambandsins og mældu fyrir  3 holu æfingavelli á Skipeyri, var hann til staðar þar til flugvallargerð hófst á svæðinu 1960.  Áhugi Ísfirðinga fyrir golfíþróttinni var mikill, en aðstæður allar hinar erfiðustu, fram kemur í heimildum að Golfsambandið hafi útvegað hinum nýstofnaða klúbbi holuspotta, stangir og flögg fyrir nýja völlinn á Skipeyri.

Seinni stofnfundur Golfklúbbs Ísafjarðar var haldinn 6.maí 1978.  Tildrög þess voru að í bæinn fluttist Margrét Árnadóttir en uppáhaldsiðja hennar hafði verið golf.  Hún reifaði hugmynd sína um golfið við íþróttasinnaða menn í bænum sem sýndu þessu strax áhuga.  Þá var lagður fram listi í Bókhlöðunni í janúar 1978 þegar bærinn var á kafi í snjó og í svartasta skammdeginu.  Áhugi Ísfirðinga lét ekki á sér standa, sextíu manns skrifuðu nöfn sín á listann og mættu 22 á stofnfundinn.  Margrét Árnadóttir mætti með golfkylfur sínar og sýndi og útskýrði það helsta í íþróttinni.  Stofnfundur Golfklúbbs Ísafjarðar var svo haldinn í Gagnfræðaskólanum 6.maí, á fundinum voru samþykkt lög klúbbsins og kosin fyrsta stjórn.  Formaður var kosinn Margrét Árnadóttir, ritari Pétur Svavarsson, gjaldkeri Birna Einarsdóttir og meðstjórnendur Ólafur Þórðarson, Björn Helgason, Þórólfur Egilsson og Sigurður K.G Sigurðsson.  Strax var hafist handa við að útvega land fyrir golfvöll, sá fyrsti var á Búðartúni í Hnífsdal, svo í Fremri-Hnífsdal.

12.september 1984 gerðu Golfklúbbur Ísafjarðar og Bjarni Halldórsson bóndi í Tungu með sér svohljóðandi samkomulag:“ Undirritaður Bjarni Halldórsson í Tungu, lýsi hér með yfir samþykki fyrir því að Golfklúbbur Ísafjarðar fái til afnota landspildur þá sem Tunga hefur nytjað í landi Ísafjarðarkaupstaðar.  Landið takmarkast af Tunguá að sunnan, Skógarbraut að norðan, af landareign Bræðratungu að austan og túnum Seljalandsbús að vestan.  Golfklúbbur Ísafjarðar mun nýta sér svæðið til iðkunar íþrótt sinni og sjá um að halda því í góðri rækt, svo og sjá  um að viðhalda girðingum sem því tilheyra og varna því að tún Tungu verði fyrir ágangi skepna.“

Gunnar

DEILA