Félagar úr Björgunarfélagi Ísafjarðar fræða ferðafólk á Safetravel deginum

Björgunarsveitirnar eru okkur mikilvægar og ómetanlegt það sjálfboðaliðastarf sem þar fer fram. Mynd: Björgunarfélag Ísafjarðar.

Í dag er Safetravel dagurinn og félagar úr Slysavarnafélaginu Landsbjörg verða á um 50 viðkomustöðum ferðamanna, ræða við þá og dreifa fróðleik til þeirra. Klukkan 16 verða félagar úr Landsbjörgu staddir á tjaldsvæðinu á Patreksfirði, tjaldsvæðinu á Ísafirði og hjá N1 skálanum á Ísafirði þar sem þeir munu spjalla við ferðafólk og fræða um ábyrga ferðahegðun.

Dagurinn í dag markar einnig upphaf hálendisvaktar Slysavarnafélagsins Lands-bjargar þetta sumarið og klukkan 16:00 í dag leggur fyrsti hópurinn af stað á há-lendisvakt frá Olís Norðlingaholti. Fimm félagar úr Björgunarfélagi Ísafjarðar leggja einmitt leið sína að Fjallabaki og í Landmannalaugar 8. júlí en markmiðið með há-lendisvaktinni er að sinna forvörnum með því að leiðbeina og aðstoða ferðamenn ásamt því að stytta viðbragð björgunarsveita komi til útkalla á hálendinu. Á hverju sumri taka um 200 manns þátt í verkefninu og sinna rúmlega 2.000 útköllum, margir nýta þannig hluta af sumarfríinu sínu og standa vaktina í góðum félagsskap í viku í senn.

Hálendisvaktin er staðsett á 3 stöðum á hálendinu: Landmannalaugum, Nýjadal á Sprengisandi og Drekagili Norðan Vatnajökuls. Einnig verður viðbragðsvakt í Skafta-felli í Vatnajökulsþjóðgarði. Forvarnir og upplýsingagjöf til ferðamanna er stór hluti af verkefninu og í ár verður í fyrsta skipti notast við spjaldtölvur og geta ferðamenn þannig skráð á staðnum inn sína ferðaáætlun á safetravel.is

Það er nokkuð ljóst miðað við verkefnin hjá björgunarsveitum undanfarið að það er fullt ástæða fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg að halda úti verkefninu. Hálendisvegir eru að opna fyrr en oft áður og enn er þónokkur snjór á sumum slóðum og göngu-leiðum sem gerir ferðalög erfiðari og getur aukið líkurnar á að ferðafólk vanmeti aðstæður. Það er mikilvægt fyrir göngufólk að hafa það í huga við sína áætlanagerð að gönguferðir í þannig aðstæðum geta verið erfiðari en ella. Ekki má gleyma því að huga að veðurspám og kynna sér aðstæður, hvort sem það er sumar að vetur.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA