Bletturinn 60 ára í sumar

Birki. Mynd: Garðheimar.

Hjónin Sigurður H. Eiríksson og Ingibjörg Pálsdóttir á Hvammstanga eiga 60 ára skógræktarafmæli í ár en árið 1958 gróðursettu þau sín fyrstu tré á grýttu og ómerkilegu túni sem nú er fullt af lífi og þakið hinum ýmsum tegundum trjáa. Í tilefni þess hefur hópfjármögnun verið sett af stað fyrir komandi verkefnum sumarsins og nú þegar tæpur mánuður er til stefnu hafa safnast 25% af áætluðu markmiði.

Ingibjörg Pálsdóttir og Sigurður H Eiríksson, oftast kölluð Lilla og Siggi, hafa öll sín búskapaár átt heima á Hvammstanga. Þar hafa þau verið drjúg í uppbyggingu ungmennastarfs og annarra tómstunda í héraðinu og taka enn virkan þátt, komin á níræðisaldur. Áhugi þeirra á skógrækt hefur sett fallegan svip á Húnaþing vestra en rétt sunnan við Hvammstanga má sjá fallegan skógræktargarð sem hefur verið þeirra frístundagaman í tugi ára. Fyrir 60 árum óskuðu þau eftir landi til að rækta á og varð þeim að ósk sinni. Landið var grýtt tún sem talið var ógerlegt til ræktunnar og þar sem enginn fjárbóndi hafði áhuga á landinu fyrir sínar kindur var þeim hjónum afhent það til ræktunar. Í dag er þetta land ótrúlega líflegur og fallegur gróðurræktarblettur sem í daglegu tali ber heitið Bletturinn. Á þessum 60 árum hefur hann fengið að vaxa og dafna en Lilla og Siggi hafa sinnt honum af mikilli ástríðu og elju frá fyrsta degi. Í Blettinum má finna trjátegundir frá öllum heimshornum, sumar hverjar sjaldséðar á Íslandi, gróðurhús þar sem helst eru ræktaðar mismunandi tegundir af plómum og fjöldan allan af lundum þar sem hægt er að setjast niður og njóta náttúrunnar

Fyrir 60 árum voru Lilla og Siggi að nálgast þrítugsaldurinn en eru nú farinn að nálgast níræðisaldurinn. Þrátt fyrir ótrúlega mikla elju og ástríðu til að stunda áhugamál sitt hefur aldurinn sagt til sín og á síðustu árum hefur hægst á þeim hjónum. Vegna aldurs eru ýmis verkefni, sem áður voru þeim auðleysanleg og létt, nú orðin töluvert þyngri og erfiðari. Bletturinn þarfnast mikils viðhalds. Göngustígar eru horfnir, brýr yfir læki eru brotnar, klósettaðstaðan orðin engin og sláttur- og dráttarvélar þarfnast viðgerða.

Í tilefni þess að Bletturinn á 60 ára afmæli í sumar hefur verið sett af stað hópfjármögnun þar sem einblínt verður á að ráðast í þessi verkefni. Almenningur hefur tekið vel í þetta og deilt fjármögnunarsíðunni og lagt sitt í verkefnið. Umbunað er fyrir hvert framlag með ýmsum hætti, allt frá þökkum í þakkarpósti í lok fjáröflunar til grillveislu, plómuhappdrættis og næturgistingar í tjaldi eða bústaði á Blettinum. Nú þegar er búið að úthluta einum bústaðargistingu í lok fjáröflunar og framundan er skemmtileg og lífleg grillveisla.

Þetta sýnir manni hvað mannfólkið er ótrúlega gott og hjálpsamt og tilbúið að veita aðstoð þegar á reynir. Fyrir þá sem vilja leggja sitt af mörkum þá má finna fjáröflunarverkefnið á eftirfarandi slóð: https://www.karolinafund.com/project/view/2040

 

Benjamín Freyr Oddsson

Íþrótta- og heilsufræðingur

Barnabarn Ingibjargar og Sigurðar

Strandgata 6, 530 Hvammstanga

777-2789

benjaminfreyr@simnet.is

https://www.karolinafund.com/project/view/2040

DEILA