Blendnar tilfinningar sem fylgja því að selja Vigur

Báturinn Vigur Breiður. Mynd fengin af heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða.

Margir supu hveljur þegar sú frétt barst út að eyjan Vigur í Ísafjarðardjúpi væri til sölu. Hjónin Salvar Baldursson og Hugrún Magnúsdóttir hafa búið í eynni en Salvar er fæddur þar og uppalinn. Það hljóta að fylgja því blendnar tilfinningar að ætla að selja svona stórkostlegan stað og flytja burt frá honum og Salvar sagði í samtali við bb.is að tilfinningarnar væru það svo sannarlega. „En það er nú bara svo komið að við erum orðin fullorðin og enginn af okkar afkomendum sem hefur almennilega viljað taka við, svo þessi ákvörðun var tekin,“ segir Salvar.

„Við erum búin að búa hérna í 40 ár og það verður bara að koma í ljós hvernig það er að fara í land,“ segir Salvar og smáhlær, en þau hjónin bæði eru ákaflega góðir viðmælendur og greinilega engin gremja sem fylgir þessari stóru ákvörðun, þó tilfinningarnar séu auðvitað blendnar. „Já, þetta er dálítið af húsum og rekstur,“ bætti Salvar svo við. Húsakosturinn á eynni nær yfir 700 fermetra og sjálf eyjan er um 45 hektarar. í sölupakkanum eru ýmis hús, svo sem íbúðarhús og veitingasalur í gamla fjósinu, vélageymsla og hlaða. Þá á Þjóðminjasafnið nokkrar eignir á eynni, eins og mylluna og Viktoríuhúsið.

Mikið fuglalíf er í eynni og Salvar bóndi var einmitt staddur úti í eyju að kanna æðarvarpið þegar bb.is náði tali af honum. „Æðarvarpið gengur mjög vel. Það var blautt til að byrja með en þurrt núna og útleiðslan er að byrja. Það er þegar ungarnir eru að fara og nú erum við að týna. Hér eru um 3000 hreiður og fyrsti hálfi mánuðurinn í júní fer í að týna æðardún. Í venjulegu árferði fáum við um 50-60 kíló af dún,“ segir Salvar.

Eins og fram hefur komið í fréttum þá heimsækja um 10 þúsund manns eyjuna á ári hverju. Salvar gerir þó ekki mikið úr því áreiti sem gæti fylgt slíkum fjölda. „Þetta er bara vinna,“ segir hann og hlær. „Ferðamannatíminn er bara 3 mánuðir því það er lítið af ferðafólki í maí og september. Og hérna er ferðaþjónustan mjög stýrð. Það eru aldrei svo margir í eyjunni í einu. Kannski tveir hópar í einu með 70 manns í allt. Og það eru leiðsögumenn með öllum hópum, sem fólkið verður að fylgja og fara þá stíga sem eru. Þegar líður fram á, þá stækkar svæðið sem hægt er að labba á.“

Þegar blaðamaður spurði hvað tæki við hjá þeim hjónum svaraði Salvar að það væri ekki ákveðið. „Við eigum börn og barnabörn í Reykjavík en ég veit ekki hvort maður fer suður eða stoppar á leiðinni,“ segir Salvar og bb.is óskar þeim góðs gengis í framtíðinni.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

DEILA