80 ár frá byggingu Sundlaugarinnar í Reykjarfirði

Sundlaugin í Reykjarfirði er hin glæsilegasta og er vinsæll áfangastaður ferðamanna á svæðinu. Mynd: Úr sögu sundlaugarinnar í Reykjarfirði eftir Erlu Jóhannesdóttir

Þann 2. júlí næstkomandi verða komin 80 ár frá því að sundlaugin í Reykjarfirði var byggð árið 1938.

Ef gripið er niður í sögu sundlaugarinnar sem Erla Jóhannesdóttir skrifaði þá var upphafið að lauginni þannig að árið 1929 var hlaðinn stíflugarður fyrir afrennsli volgrar tjarnar og hún stækkuð með því að stinga úr bakkanum. Með þessu varð til fín sundlaug þar sem hægt var að æfa sundtökin og var börnum kennt í þessari laug sem kölluð var Pollurinn eða Moldarlaugin.

Vinna við að byggja betri sundlaug hófst síðar með það í huga að efla menningu sveitarfélagsins og vekja þrótt og samstarf meðal unga fólksins í nágrenninu. Sú sundlaug var svo vígð þann 2. júlí 1938 og strax hófst fyrsta námskeiðið með 25 nemendum. Á vígsludaginn sjálfan komu saman 73 gestir sem verður að teljast fjölmenni á jafn afskekktum stað og Reykjarfjörður er. Hvert námskeið stóð yfir í 2 vikur að vori til og á milli sundæfinga var farið í leiki og sett upp leikrit.

Laugin var endurgerð sumarið 1986 en þá var hún endurbyggð og máluð í fyrsta sinn og var það hægt vegna framlaga frá velunnurum sundlaugarinnar. Sundlaugin er 8 x 20 m og mesta dýpi er 1,70 m. Hveravatnið sem rennur í sundlaugina er um 52°C heitt en ekkert kalt vatn rennur í hana.

Árið 1990 var hafist handa við að byggja „Baðhúsið.“ Þar eru klefar með sturtu- og snyrtiaðstöðu fyrir ferðafólk. Skátar frá Ísafirði aðstoðuðu við byggingu Baðhússins til minningar um Jóhannes. Fyrir nokkrum árum var settur heitur pottur og smíðaður pallur.

DEILA