Stundin okkar heimsótti Náttúrubarnaskólann á Ströndum

Tvö af liðunum sem tóku þátt í Stundarglasinu. Mynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir.

Stundin okkar var stödd á Ströndum í vikunni til að taka upp efni fyrir nýja þáttaröð sem hefst í október, en þau hafa verið dugleg að ferðast um landið síðustu ár. Krakkar í Náttúrubarnaskólanum voru með í upptökunum þar sem þau bralla ýmislegt skemmtilegt. Á námskeiði Náttúrubarnaskólans hafa þau til dæmis keppt í Stundarglasinu, sem hefur verið vinsælt í Stundinni okkar seinustu tvö ár, en þar er keppt í undarlegum íþróttagreinum. Einnig er hluti þeirra að taka þátt í nýrri smáseríu, Leiðangrinum, sem verður hluti af þáttarröðinni næsta vetur.

Emilía Rut Ómarsdóttir og Guðný Sverrisdóttir leggja af stað í leiðangur. Mynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir.

Í leiðangrinum leysa krakkarnir ráðgátur sem kynntar eru fyrir þeim í upphafi og þurfa þau að safna vísbendinum og komast að niðurstöðu sjálf í lokinn. Sigyn Blöndal umsjónarmaður Stundarinnar okkar lýsti þessari nýju seríu fyrir okkur: „Ráðgáturnar byggja á þjóðsögum, raunverulegum uppákomum eða algjörri vitleysu en markmiðið er samt sem áður að læra eitthvað skrítið og skemmtilegt um umhverfið okkar eða sögu á leiðinni,“ segir Sigyn. Leiðangrarnir sem teknir eru upp á Ströndum kallast Leitin að sæskrímslinu, Leitin að tröllunum og Leitin að ósýnilega prakkaranum. „Leitin að sæskrímslinu er byggð á Risa-skjaldbökunni sem kom til Hólmavíkur árið 1963. Leitin að tröllunum byggir á þjóðsögunni um tröllin sem ætluðu að moka Vestfjarðakjálkann af meginlandinu og Leitin að ósýnilega prakkaranum er æsispennandi leiðangur þar sem krakkarnir þurfa að kynna sér galdrarúnir og kukl til að leysa ráðgátuna,“ segir Sigyn.

Tökurnar gengu vel að sögn Sigyn: „Tökurnar gengu mjög vel, krakkarnir stóðu sig stórkostlega og móttökurnar hérna voru dásamlegar. Það fór mjög vel um okkur hér á Kirkjubóli og umhverfið er hreint dásamlegt. Veðrið lék við okkur, og við fórum í borgina með fullt af skemmtilegu efni til að sýna landsmönnum næsta vetur“ sagði Sigyn hress að lokum.

Dagrún Ósk

DEILA