Lofar skemmtilegheitum og heljarinnar partýi

Gauti Þeyr Máson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, mun halda tónleika ásamt félögum sínum í Edinborgarhúsinu á Ísafirði laugardagskvöldið 9. júní næstkomandi klukkan 21:00. Miðaverð er 2.900 krónur og hægt er að nálgast miða á tix.is eða við hurðina. Tónleikarnir eru liður í hringferð Gauta þar sem þeir félagar munu halda 13 tónleika á 13 dögum. Það er mikið fjör í kringum Gauta á þessu landshornaflakka líkt á ávalt þegar að honum kemur og í þetta sinn bættist upptökufólk við hópinn og teknir hafa verið upp sjónvarpsþættir af tónleikaferðalaginu.

Gauti Þeyr segir að ekki hafi verið hægt að sleppa Ísafirði á þessu tónleikaferðalagi. „Við urðum bara að taka Ísafjörð líka með í þessum hring. Bæði eru Vestfirðirnir bara svo ógeðslega fallegir og svo er líka alltaf mikið stuð á Ísafirði. Þetta er búið að vera mikið keyrsla og mörg gigg.“ segir Gauti Þeyr.

Gauti Þeyr segir að sjö manna hópur ferðist með sér og að gestasöngkona muni bætast við hópinn í Edinborgarhúsinu. „Hún Bríet söngkona bætist við hópinn, hún ætlar að taka nokkur lög með okkur. Ég lofa skemmtilegheitum og almennilegu partýi.“ segir Gauti Þeyr.

 

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA