„Samgöngubót í gíslingu flækjustigs stjórnsýslunnar“

Fimm þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem heimilar, verði það samþykkt, að farið verði í framkvæmdir á leið Þ-H á Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Skálaness. Þetta er hin svo kallaða Teigskógsleið, sem mikill styrr hefur staðið um. „Óásættanleg töf hefur nú þegar orðið á málinu sem hefur nú þegar velkst í kerfinu í tæp 15 ár. Flutningsmenn telja ekki ásættanlegt að íbúar svæðisins þurfi lengur að líða fyrir þær miklu ógöngur sem leyfi til framkvæmda hefur þurft að feta. Það hefur varla verið vilji löggjafans að hægt sé að halda jafnbrýnni samgöngubót í gíslingu flækjustigs stjórnsýslunnar í jafnlangan tíma og raun ber vitni“, segja flutningsmenn í greinargerð frumvarpsins.

„Með veitingu framkvæmdaleyfisins er verið að eyða óvissu um þann þátt málsins og fyrirbyggja frekari tafir á þessum brýnu samgönguframkvæmdum sem varða ríka almannahagsmuni og koma ferlinu í fastan farveg“, segir ennfremur í greinargerð sem frumvarpinu fylgir.

Flutningsmenn frumvarpsins eru þingmennirnir, Haraldur Benediktsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Bergþór Ólason, Sigurður Páll Jónsson.

„Óásættanlegt að þurfa að bíða í heilt ár til viðbótar“

Leiðin sem þingmennirnir fimm vilja lögfesta er sú sem Vegagerðin hefur lagt til, að loknu ítarlegu mati á þeim kostum sem fyrir liggja. Reykhólahreppur hefur samþykkt legu þessa vegar í tillögu að breyttu aðalskipulagi sem nú er til meðferðar í stjórnsýslunni og er niðurstöðu að vænta á næstunni. „Að því búnu er ekkert að vanbúnaði að sækja um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdaleyfi gæti legið fyrir í ágúst 2018 og ef allir kærufrestir verða nýttir þá getur útgáfa framkvæmdaleyfis dregist fram á vor 2019. Það er óásættanlegt að íbúar á þessu svæði þurfi að bíða í heilt ár til viðbótar vegna flækjustigs í stjórnsýslunni“, segir í greinargerð frumvarpsins.

„Samgöngubót í gíslingu flækjstigs stjórnsýslunnar“

Í greinargerð frumvarpsins er farið yfir tilgang og nauðsyn lagasetningar og segir þar:

„Ekki þarf að fjölyrða um brýna nauðsyn þess að ráðast í vegabætur á svæðinu sem um ræðir, enda ber gamli malarvegurinn um Gufudalssveit ekki lengur þá umferð sem um hann fer og skapar alvarlega hættu. Óásættanleg töf hefur nú þegar orðið á málinu sem hefur nú þegar velkst í kerfinu í tæp 15 ár. Flutningsmenn telja ekki ásættanlegt að íbúar svæðisins þurfi lengur að líða fyrir þær miklu ógöngur sem leyfi til framkvæmda hefur þurft að feta. Það hefur varla verið vilji löggjafans að hægt sé að halda jafnbrýnni samgöngubót í gíslingu flækjustigs stjórnsýslunnar í jafnlangan tíma og raun ber vitni. Tímabært er að umræða um rétt íbúa gegn svifaseinni stjórnsýslu eigi sér stað. Flutningsmenn þessa frumvarps telja að nauðsynlegt sé því að grípa í taumana í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari tafir og flýta því eins og kostur er að framkvæmdir geti hafist. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa að undanförnu sett fram sambærileg sjónarmið.
Tilgangur þessa frumvarps er að veita leyfi til framkvæmdarinnar með lögum til að eyða óvissu um það atriði“.

„Með frumvarpinu er verið að eyða óvissu“

Í greinargerðinni er meginefni frumvarpsins rakin með þessum orðum:

„Frumvarpinu er ætlað að veita Vegagerðinni með lögum framkvæmdaleyfi fyrir leið Þ-H sem fylgir núverandi vegi frá Bjarkalundi að Þorskafirði og þverar Þorskafjörð eins og leiðir D2 og H1. Hún liggur svo út með Þorskafirði að vestanverðu. Yst á Hallsteinsnesi sameinast hún leið H1 og verður í sömu legu yfir Djúpafjörð og Gufufjörð að Skálanesi. Með veitingu framkvæmdaleyfisins er verið að eyða óvissu um þann þátt málsins og fyrirbyggja frekari tafir á þessum brýnu samgönguframkvæmdum sem varða ríka almannahagsmuni og koma ferlinu í fastan farveg.

-Gunnar

DEILA