Vatnsréttindi sveitarfélaga á Vestfjörðum

Orkubússtjóri, Elías Jónatansson, ritaði fyrir nokkru síðan grein á bb.is, þar sem hann lýsir því viðhorfi sem stjórnendur Orkubús Vestfjarða hafa til deilunnar um vatnsréttindi á jörðum í eigu sveitarfélaga á Vestfjörðum.  Greinin sem slík er ekki alslæm, en hafa skal í huga að hún lýsir fyrst og síðast viðhorfi stjórnenda Orkubúsins.  Hún er ekki endanlegur sannleikur um málið og gengur til að mynda þvert á viðhorf sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum.  Ekki bara í dag, heldur í talsverðann tíma.

Allt frá stofnun Orkubús Vestfjarða, árið 1978, hefur verið deilt um afsal á vatnsréttindum sveitarfélaganna til Orkubúsins og hvort að það hafi verið nauðsynlegur hluti af samkomulaginu um stofnun Orkubús Vestfjarða.  Því er alrangt hjá Elíasi að halda því fram að sá gjörningur sé eða hafi verið óumdeildur.  Óumdeilt tel ég hinsvegar vera að um umtalsverð verðmæti er að ræða.

Sameignarfélagið Orkubú Vestfjarða

Orkubú Vestfjarða var stofnað í byrjun árs 1978 á grundvelli laga nr. 66 frá 1976.  Félagsformið var sameignarfélag, þar sem hlutur ríkisins var ákveðinn 40% en sveitarfélaganna á Vestfjörðum 60% og skyldi skiptast í hlutfalli við íbúafjölda.  Með sameignarfélagsforminu fylgdi sá böggull að sameigendur báru einfalda óskipta ábyrgð á skuldbindingum Orkubús Vestfjarða gagnvart kröfuhöfum og var innbyrðis skipting ábyrgðar í samræmi við eignarhlutföll.

Þar að auki var tiltekið í lögum nr. 66/1976 að Orkubú Vestfjarða sameignarfélag var undanþegið öllum opinberum sköttum og gjöldum, til ríkis og sveitarfélaga.

Því má öllum vera ljóst að sveitarfélögin á Vestfjörðum tóku öll fjárhagslega áhættu með stofnum og rekstri sameignarfélagsins.  Einnig er augljóst að árlega gáfu sveitarfélögin eftir fasteignagjöld til OV sem má meta að núvirði á tugi milljóna.

„Afsal vatnsréttinda“ – í hvaða tilgangi ?

Í lögum um Orkubú Vestfjarða, nr. 66/1976, grein nr. 2. fyrstu málsgrein, er eftirfarandi tiltekið:  „Tilgangur fyrirtækisins skal vera að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum, þar sem hagkvæmt þykir.“  Meint afsal vatnsréttinda á landi í eigu sveitarfélganna var því augljóslega ætlað til að auðvelda Orkubúinu að virkja fallvötn á Vestfjörðum og efla með því raforkukerfið á svæðinu, enda hafði það einokunarrétt á framleiðslu og dreifingu á raforku á Vestfjörðum.  Raunveruleikinn birtir okkur hinsvegar aðra mynd en þá draumsýn sem stofnendurnir höfðu.  Ekkert af þeim umræddu vatnsréttindum, sem til voru til á þeim tíma sem Orkubúið var stofnað, hafa verið nýtt.  Eina nýja virkjunin sem reist hefur verið af Orkubúi Vestfjarða, er Tungudalsvirkjun, reist í framhaldi af gerð Vestfjarðaganganna og því mikla vatni sem út úr þeim streymir.

Efasemdaraddir frá fyrsta degi

Í grein sinni, vitnar Elías í orðalag sem finna má í samningi sem Ísafjarðarkaupstaður gerði við Orkubúið við stofnun þess.  Ísafjarðarkaupstaður, Bolungarvíkurkaupstaður og Patrekshreppur voru reyndar einu sveitarfélögin sem undirrituðu samninga með þessu orðalagi, af 32 sveitarfélögum sem þá voru á Vestfjörðum og mynduðu eigendahóp Orkubúsins ásamt ríkinu.  Þau önnur sveitarfélög sem gerðu álíka samninga við Orkubúið, settu fyrirvara inn í samninganga.  En það er langur vegur frá því að öll 32 sveitarfélögin hafi undirritað þessa samninga, því árið 1986 hafi einungis verið undirritaður samningur við 6 sveitarfélög og yfirlýsing með öðrum tveimur.

Augljóst er því að ekki voru allir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum tilbúnir að taka þátt í jafn umfangsmiklu afsali réttinda eins og bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar hafið verið fengin til að gera.  Vitað er að fulltrúar Ísafjarðarkaupstaðar reyndu ítrekað að gera orðalagsbreytingar á samningi kaupstaðarins við Orkubúið og var í því efni vísað í að afsal sveitarfélagsins braut gróflega á þeirri yfirlýstu stefnu stjórnar Orkubúsins um að öll sveitarfélögin ættu að sitja við sama borð.

Á svig við gildandi lög ?

Í umræddum afsalssamningi sveitarfélaganna eru tiltekin orkuréttindi sem heyra undir tvenn óskild lög, annars vegar Vatnalög nr. 15/1923 og hinsvegar Orkulög nr. 58/1967.  Skýrt er tekið fram í Orkulögum að óheimilt sé með öllu að skilja hitaréttindi frá landareign án sérstakrar heimildar ráðherra.  Ekki hafa forsvarsmenn Orkubúsins sýnt fram á að sú heimild hefur nokkurntíman legið fyrir.

Orkubúið fyrir löngu afsalað sér réttindunum ?

Þau rök sem meðal annars hafa verið notuð í áralöngum deilum við Orkubúið vegna þessa, er að félagið hafi í reynd fyrir löngu afsalað sér meintum orkuréttindum með því að gera ekkert í að nýta þau og jafn lítið í að standa um þau vörð.

Þannig hafa engin vatnsföll verið virkjuð eins og áður var nefnt.  Þá völdu stjórnendur O.V. að taka ekki þátt í orkuöflun í Reykjanesi, vegna atvinnuuppbyggingar á Nauteyri á sínum tíma, í stað þess að Orkubúið gripi það tækifæri og nýtti orkuréttindi sem það taldi sig hafa eignarrétt á.

Einnig má benda á að sveitarfélög á Vestfjörðum hafa á þeim tíma frá því að Orkubúið sameignafélag var stofnað, selt eitthvað af þeim jörðum sem voru í eignasafni þeirra í ársbyrjun 1978.  Í engum tilfellum hefur Orkubúið séð ástæðu til að gera athugasemdir við samninga vegna eigendaskiptanna, eða afsöl vegna þeirra.  Því verður að líta svo á að Orkubúið hafi ekki talið að eigendaskipti á jörðunum og þar með eignarréttur á vatnsréttindum viðkomandi jarða, hafi komið félaginu við.

Afnotaréttur til skamms tíma?

Það er nokkuð ljóst að þessi deila endar hjá dómstólum.  Það er reyndar nokkuð sem ég kvíði ekki því ég er sannfærður um að niðurstaðan verður sveitarfélögunum hagstæð.

Líkleg niðurstaða tel ég að verði eitthvað í þessa veru:

Sveitarfélögum á Vestfjörðum var óheimilt að afsala hita- og vatnsréttindum til Orkubús Vestfjarða.  Á meðan Orkubúið var sameignarfélag og sveitarfélögin báru einfalda og óskipta ábyrgð á rekstri félagsins var slík tilhögun þó skiljanleg og jafnvel réttlætanleg.  Eftir að tengsl sveitarfélaganna og Orkubúsins rofnuðu, með breytingu félagsins í hlutafélag og að ríkið gerðist eini eigandi Orkubúsins, varð gjörningurinn algerlega óréttlætanlegur.

Ég ætla að ljúka þessari grein með því að vitan í tillögu sem 10 heiðursmenn lögðu fyrir aðalfund Orkubús Vestfjarða fyrir ca 30 árum:

„Áttundi aðalfundur Orkubús Vestfjarða lýsir yfir að öll sveitarfélög sem eru aðilar að O.V. skuli hafa heimild til þess að hagnýta sér orku í löndum sínum, sem O.V. nýtir ekki í náinni framtíð til virkjana er samrýmast tilgandi O.V samkvæmt 2.gr. laga nr. 66 frá 31 maí 1976 um Orkubú Vestfjarða“

Þessa tillögu tel ég lýsa vel þeirri hugsun sem sveitarstjórnarmenn höfðu til hugmyndarinnar um afsal orkuréttinda sveitarfélaganna.  Möguleika í náinni framtíð, til úrbóta á vanþróuðu raforkukerfi Vestfjarða.  Síðan eru liðin mörg ár.

-Sigurður Hreinsson bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.

DEILA