Útflutningsverðmæti í fiskeldi gæti samsvarað tvöföldun þorskkvótans

Ef fiskeldi á Íslandi verður í samræmi við áhættumat það sem Hafrannsóknastofnunin gaf út í sumar, verður útflutningsverðmætið amk um 50 milljarðar króna, sem er álíka og útflutningsverðmæti alls uppsjávarfisks, loðnu, síld, makríls og kolmunna var árið 2016. Verði það hins vegar 130 þúsund tonn ( þmt 30 þúsund tonn í Ísafjarðardjúpi) verður útflutningsverðmætið um 100 milljarða, sem er álíka tala og nam útflutningsverðmæti alls þorskaflans árið 2016.

Þetta kom fram í ræðu Einars Kristins Guðfinnssonar formanns Landssambands fiskeldisstöðva, sem haldinn var nú nýlega. Í kaflanum þar sem hann ræðir þessi mál segir eftirfarandi:

„Í fiskeldinu liggja þó tækifærin fyrst og fremst í framtíðinni. Það er því ástæða til að setja í samhengi hvað uppbygging í fiskeldi getur haft í för með sér fyrir landið í heild sinni og einstök landsvæði.

Stöldrum aðeins við tvær tölur. Annars vegar 71 þúsund tonna laxeldi, sem áhættumatið gerir ráð fyrir og hins vegar 130 þúsund tonnin sem burðarþolsmatið sýnir á þessu stigi málsins. Ætla má að útflutningsverðmæti 71 þúsund tonna af laxi sé á bilinu 50 til 55 milljarðar króna og samsvarandi upphæð fyrir 130 þúsund tonna framleiðslu sé því um 90 til 100 milljarðar. Er þetta mikið eða lítið? Svörum þeirri spurningu með því að skoða þessar tölur í samhengi við þekktar stærðir.

Einar Kristinn Guðfinnson í ræðustól á Strandbúnaði

Samkvæmt nýjustu fáanlegum tölum Hagstofu Íslands nam útflutningsverðmæti alls uppsjávarfisks á Íslandi, síld, loðnu, kolmunna og makríl, um 50 milljörðum króna árið 2016. Sem sagt álíka útflutningsverðmæti og ætla má að við fengjum fyrir 71 þúsund tonna ársframleiðslu á laxi, sem er magnið sem áhættumatið gerir ráð fyrir.

Skoðum þá hina töluna. Framleiðslu á laxi miðað við burðarþolsmatið sem er 130 þúsund tonn. Útflutningsverðmæti upp á 90 til 100 milljarða er álíka og útflutningsverðmæti á þorski sem var árið 2016 – 100 milljarðar. En útflutningsverðmæti þorsksins fór oní 83 milljarða í fyrra m.a vegna lægra verðs, sjómannaverkfalls, sterkara gengis og fleiri þátta.

Þetta er sem sagt framtíðin. Verði framleiðsluheimildirnar í framtíðinni í samræmi við áhættumatið verður það ígildi þess að við værum að tvöfalda útflutning okkar af uppsjávarfiski. Verði þær hins vegar í samræmi við burðarþolsmatið þá samsvarar það því að við tvöfölduðum þorskkvótann. Það munar um minna, ekki satt?“

-Gunnar

DEILA