Tvær milljónir eins og skot

Akademían á Þingeyri að störfum. Ljósm. Kristján Ottósson.

Þingeyrarakademían gerir að tillögu sinni að ellilífeyrisþegar, sem ekkert hafa til að moða úr nema einfaldan ellilífeyri, fái eins og skot tvær milljónir króna og það skattfrjálst úr sameiginlegum sjóði landsmanna, sem afturvirka eingreiðslu. „Flestir þeirra hafa unnið baki brotnu fyrir landið alla sína tíð og eiga þetta inni hjá ríkissjóði. Þó fyrr hefði verið. Þeir sem við kjötkatlana sitja ættu að skilja þetta manna best,“ segir í orðsendingu frá akademíunni.

Að mati akademíunnar er ekki nokkur þörf á starfshópi eða nefnd vegna þessa máls og krefst hún aðgerða strax og til að fjármagna tillöguna er bent á arðgreiðslur úr Landsbankanum.

Í ályktuninni vísað í viðtal Morgunblaðsins við 73 ára konu sem byrjaði að vinna í fiski 13 ára. Heildargreiðslur til hennar úr lífeyrissjóðskerfinu eru 230 þúsund fyrir skatt.

„Við leyfum okkur svo að greiða þeim sem ekki vita aura sinna tal afturvirkar launahækkanir upp á fleiri milljónir króna. En aldrei hafa menn heyrt talað um afturvirkar launahækkanir handa þeim sem virkilega þurfa á því að halda,“ segir í ályktun Þingeyrarakademíunnar.

Þingeyrarakademían er stór hópur manna sem stundar morgunsund og heita pottinn á Þingeyri. Þar eru ýmiskonar innanlands- og heimsvandamál rædd og jafnvel leyst. Þingeyrarakademían kemur til dyranna eins og hún er klædd.

DEILA