Teigsskógssyndrómið eða stjórnmálamenn?

Séð út með Þorskafirði.

Á undanförnum árum hafa stjórnmálamenn meðvitað og ómeðvitað afsalað sér völdum. Þau hafa færst í vaxandi mæli til ýmissa stofnana og hagsmunasamtaka að ógleymdum embættismönnunum. Flestar af þessum valdatilfærslum hafa átt sér stað undir merkjum þess að tryggja betri málsmeðferð og vinsælasta skýringin er án efa frasinn um aukið gagnsæi og bættan rétt hins almenna borgara gagnvart stjórnvöldum. Ábyrgðin liggur eftir sem áður hjá stjórnmálamönnunum. Það eru þeir sem hafa löggjafarvaldið og eru á sama tíma handhafar framkvæmdavaldsins,  sem ráðherrar. Þeir leggja skýrar línur bæði á landsvísu og einnig á vettvangi sveitarstjórna.

Þessi valdatilfærsla undir merkjum almannavalds hefur á undanförnum árum snúist uppí andhverfu sína. Hún hefur tryggt völd hinna fáu. Völd sem tryggt hafa sérhagsmuni framar almannahagsmunum undir ýmsum fallegum nöfnum hverju sinni. Skýru línur stjórmálamannanna dofna flestar og hverfa sumar þegar fram liða stundir.

Vestfirðingar þekkja á eigin skinni afleiðingar þessarar stefnu. Teigsskógur er orðinn samnefnari fyrir þessa þróun. Fiskeldis- og raforkumál eru skammt undan.

Eins og áður sagði  bera kjörnir fulltrúar ábyrgðina að lokum hvort sem þeir sem þeir sitja á hinu háa Alþingi eða í sveitarstjórnum. Það er þeirra að snúa þessari þróun við þannig að almannahagur ráði för í brýnum hagsmunamálum.

Fulltrúar Vestfirðinga á Alþingi eru átta þingmenn Norðvesturkjördæmis. Þar eru nú engir veifiskatar á ferðinni og ekki eru þeir nú aldeilis valdalausir.  Þar er varaformaður stærsta stjórnmálaflokks landsins, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, félags- og jafnréttisráðherra, 1.varaformaður fjárlaganefndar, formaður samgöngunefndar, formaður atvinnuveganefndar, 1.varaforseti Alþingis, varaformaður þingflokks, 2.varaformaður atvinnuveganefndar svo eitthvað sé nefnt .Að auki ráða fimm þeirra hvort sitjandi ríkisstjórn lifir eða deyr.

Í vor verða sveitarstjórnarkosningar. Áður en að þeim kemur verða allir fulltrúar Vestfirðinga á Alþingi í sameiningu að koma helstu framfaramálum fjórðungsins uppúr hljólförum sérhagsmunagæslu og brjóta af okkur hlekki Teigsskógssyndrómsins. Þar má enginn liggja á liði sínu. Hefðbundin stjórnsýsla ræður engan veginn við verkefnið. Verum jákvæð og bjartsýn og njótum þess sem lífið hefur uppá að bjóða á Vestfjörðum öllum.

-Stakkur

DEILA