Strandagangan gekk eins og í sögu

Nú um helgina var Strandagangan haldin í 24. skipti í Selárdal á Ströndum, alls tóku 91 þátt í göngunni að þessu sinni. Var þetta því næst fjölmennasta gangan frá upphafi. Gangan í ár var merkileg fyrir ýmsar sakir. Þetta er fyrsta gangan eftir að nýtt hús Skíðafélags Strandamanna var byggt í Selárdal og einnig var í ár í fyrsta skipti afhentur farandbikar fyrir fyrstu konu í mark í 20 km göngu. Hann hlaut Guðný Katrín Kristinsdóttir sem keppir með Skíðagöngufélaginu Ulli. Í 20 km í karlaflokki var fyrsti maður í mark Einar Kristjánsson sem er einnig úr Ulli og fékk hann Sigfúsarbikarinn til varðveislu næsta árið.

Skemmtuninni lýkur svo í dag með leikjadegi en hann var færður til Hólmavíkur vegna veðurs. Fréttaritari BB.is leit við og tók nokkrar myndir en allir virtust skemmta sér konunglega. Aðalbjörg Óskarsdóttir ritari Skíðafélags Strandamanna var að baka pizzu ofan í mannskapinn, en hún var hæstánægð með helgina: ”Við erum virkilega ánægð með helgina, það gekk allt eins og í sögu og fólk rosa ánægt með þetta. Ég sá engan sem var ósáttur í gær og þá er maður bara ánægður.”
”Það er margt skemmtilegt fram undan, en Strandagangan er aðalhelgin okkar og þetta er stærsti íþróttaviðburðurinn á svæðinu,” segir Aðalbjörg. ”Í skíðafélaginu eru krakkar frá Strandabyggð, Reykhólum og Kaldrananesi, ótrúlega öflugt fólk. Það fer hópur á Andrésar andarleikana, svo fara einhverjir á unglingameistaramótið og svo verður haldið áfram að vinna að skíðaskálanum og klára hann alveg.”

-Dagrún

DEILA