Störf Lækna án landamæra í Vísindaporti

Helena Jónsdóttir.

Gestur Vísindaports Háskóasetursins á föstudag er Helena Jónsdóttir sálfræðingur. Í erindi sínu mun Helena fjalla um störf sín fyrir Lækna án landamæra, en hún hefur starfað fyrir samtökin í rúm þrjú ár í fjórum löndum: Afganistan, Egyptalandi, Suður-Súdan og Líbanon og mun hún segja sögu sína í máli og myndum frá vettvangi. Helena fjallar einnig almennt um Lækna án landamæra, hvernig sækja má um vinnu hjá samtökunum og helstu áskoranir sem í því felast að vinna í ólíkum menningarheimum við erfiðar aðstæður.

Helena er klínískur sálfræðingur að mennt og hafði hún, áður en hún hóf störf fyrir Lækna án landamæra, unnið sem sjálfstætt starfandi sálfræðingur á eigin stofu í 6 ár þar sem hún sérhæfði sig í hugrænni atferlismeðferð við kvíða og þunglyndi. Helena er framkvæmdastjóri nýstofnaðs Lýðháskóla á Flateyri og stoltur nýbúi þorpsins.

DEILA