Stemmning í dölunum tveim á skírdag

Skíðavikan fer vel af stað og má segja að „Skíðaheimastemmning“ hafi verið í Tungudal í dag, skírdag. Bílastæðið fullt og lagt fram að þjóðvegi. Smá biðraðir í lyftum, sem er ánægjuleg tilbreyting fyrir harða snjósóknara sem hafa oft verið einmanna í dalnum í vetur. Veðrið var unaðslegt, sól, logn og hlýtt. Færið gott fram yfir hádegið en þá fór að bera á sólbráð og brekkur byrjaðar að grafast.

En stemmingin góð og allir í sólskinsskapi, margir með nesti með sér og nutu skrínukostsins í veðurblíðunni.

Á Seljalandsdal nutu göngumenn dagsins og troðin göngubraut alla leið fram á heiði. Fram fór mót í skíðaskotfimi.

Það lá við umferðarvanda þar sem göngumenn krossuðu leiðir svigmanna og spurning hver á réttinn þegar þannig háttar. Spáin fyrir morgundaginn er góð, austan gola, hlýtt en skýjað. Hinsvegar lítur laugardagurinn enn betur út og má búast við Týrólaveðri, með sól, stillu og vægu frosti.

Mikið er um að vera frá morgni til kvölds í Ísafjarðarbæ og nágrannabæjum, og má sjá dagskrá skíðaviku á skidavika.is. Ekki amalegt eftir yndislegan skíðadag að skella sér t.d á Þingeyri og sjá Ronju ræningjadóttur og klára svo kvöldið með kótilettum í Einarshúsi í Bolungarvík.

-Gunnar

DEILA