Skíðavikan – föstudagurinn langi

Það var líf og fjör í Tungudal í dag, föstudaginn langa. Pylsusala Skíðafélagsins, Garpamót, furðufatadagur, nammiregn og Friðrik Dór með tónlist. Þarna röltu um m.a indjáni, álfadrotting og gott ef Superman sást ekki bregða fyrir.

Veðrið var ágætt í Tungudal, norð austan gola, 3° hiti og skýjað. Færið ágætt en skyggnið lakara. Á Seljalandsdal sló upp í kalda en færið var gott og ekki gerðar sömu kröfur um skyggni fyrir gönguskíðin eins og á svigskíðum.

Eftir skíðin er af nógu að taka í menningar- og næturlífinu; Söguferð Í Haukadal í Dýrafirði um slóðir Gísla Súrssonar, páskabingó í Simbahöll, Ljósmyndasýning í Safnahúsinu, Páll Óskar með barnaball í Edinborg, Dj Óli Dóri á Húsinu í kvöld, Dj Andrea Jónsdóttir á Vagninum Flateyri og Emmsje Gauti í Krúsinni.

Og síðast en ekki síst, „Aldrei fór ég suður“ rokkar í kvöld í skemmunni hjá Kampa á Suðurtanga. Það leiðist engum á Skíðaviku, nóg að gera kvölds og morgna.

 

 

 

-Gunnar

DEILA