Silungur skiptir um nafn

Regnbogasilungur.

Ísfirska fisksölufyrirtækið North Atlantic – Fisksala, sem sérhæfir sig í sölu á gourmet vörum úr sjávarfangi hefur undanfarin þrjú ár m.a. einbeitt sér að sölu og markaðsetningu á regnbogasilungi, sem framleiddur er á norðanverðum Vestfjörðum.

Víðir Ingþórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, upplýsti blaðamann BB um að regnbogasilungur (rainbow trout) sé framleiddur í þúsundum tonna í Evrópu og seldur um allan heim. Sá fiskur er alinn í tjörnum í ferskvatni og sé venjulega í kringum kíló að þyngd. Hann er því mjög ólíkur íslenskum regnbogasilungi, sem alinn er við bestu mögulegu aðstæður, í köldum og hreinum sjó, og er svo slátrað þriggja til fimm kílóa þungum.

Fyrirtækið hafi því séð ástæðu til að aðgreina afurðina á markaði frá ódýrum evrópskum fiski, sem seldur er á um 500 kr/kg, og selja þann íslenska á mun hærra verði. Sótt var um leyfi til að kalla fiskinn sjóurriða (sea trout), en ekki fékkst leyfi til þess. Fiskurinn er því markaðsettur undir nafninu fjarðar-urriði (fjord trout).

Fjarðar-urriði þykir mikið hnossgæti og gefur laxi ekkert eftir í bragði og áferð og hefur jafnvel fallegri rauðari lit. Fiskurinn þykir henta vel í sushi, sem er verðmætasti markaður sem til er fyrir fisk. Rétt er að geta þessi að Kári, fisksali Ísfirðinga, er yfirleitt með þennan fisk til sölu, þó hann sé ekki búinn að nefna fiskinn upp á nýtt ennþá.

-Gunnar

DEILA