Samstaða um stóru málin

Þegar það spurðist út að vestfirska fréttablaðið „Bæjarins Besta“ (BB) ætti í erfiðleikum og sá möguleiki raunverulegur útgáfan stöðvaðist, tókum við okkur til nokkrir félagar og ákváðum að hlaupa undir bagga. Við keyptum nafnið, tól og tæki til að halda útgáfunni áfram. Fyrsta verk okkar var að tryggja hlutleysi áframhaldandi útgáfu, þ.e.a.s. pólitískt hlutleysi, og tryggja að blaðið þjónaði öllum Vestfjörðum.

Við vildum jafnframt tryggja breitt eignarhald og í dag er gert ráð fyrir tugum hluthafa sem koma víða að. Hlutleysið hefur verið tryggt með þriggja manna ritstjórn sem mun sjá til þess að útgáfan lendi ekki í pólitískum öngstrætum. Útgáfan hefur leitað eftir fréttum sem víðast frá Vestfjörðum, þeirri vinnu er ekki lokið en eindreginn vilji er til að birta efni úr öllum fjórðungnum.

Við teljum það stórmál að Vestfirðir hafi sameiginlega rödd sem er hafin yfir pólitík og hrepparíg. Það standa á okkur öll spjót þessa dagana í samfélagsumræðunni á Íslandi og því mikilvægt að standa saman. Eftir vonleysi undanfarinna áratuga, með fækkun íbúa og neikvæðum hagvexti, höfum við horft upp á, og gert ráð fyrir að börnin okkar sjái engin tækifæri í lífi og starfi í heimahögum, og setjist frekar að í fjölmenninu fyrir sunnan. Þar eru tækifærin þar sem menntun og hæfileikar þeirra ná að blómstra.

Í dag sjáum við allt í einu tækifæri til að snúa vörn í sókn. Við sjáum möguleika á fiskeldi á Vestfjörðum sem getur skilað gríðarlegum verðmætum fyrir íbúa og sveitarfélög. Eldið er atvinnugrein sem þarf menntað kunnáttufólk og greiðir há laun í samanburði við hefðbundnar greinar eins og sjávarútveg. Við sjáum þegar mikinn viðsnúning til hins betra á suðurfjörðum Vestfjarða.

Við sjáum einnig mikil tækifæri í hringtengingu raforku um Vestfirði sem mun verða möguleg með byggingu Hvalárvirkjunar. Jákvæð samfélagsáhrif virkjunarinnar í Árneshreppi geta orðið töluverð samkvæmt úttekt Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri, ekki síst í raforkumálum og ljósleiðaravæðingu, en mestu skiptir að virkjunin getur orðið grundvöllurinn að bættu flutningskerfi raforku í fjórðungnum öllum. Hringtenging mun bæta afhendingaröryggi raforku til mikilla muna og gera mögulegt að svara vaxandi eftirspurn eftir orku, jafnt frá almennum neytendum sem fyrirtækjum.

Við horfum síðan til möguleika á stórbættum samgöngum fyrir norðan- og sunnanverða Vestfirði með lagningu vegar um Teigskóg, Dýrafjarðargöngum og endurbyggingu vegar um Dynjandisheiði. Ísfirðingar gætu komist til höfuðborgarinnar á um fjórum tímum, en mest mun umbyltingin  verða fyrir íbúa og fyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum sem í dag búa við verstu samgöngur á landinu.

Við Vestfirðingar gerðum ráð fyrir víðtækum stuðningi þjóðarinnar í þessum sjálfsögðu framfaramálum okkar. En við ramman reip er að draga og  við öfluga aðila að etja sem gera nánast hvað sem er til að bregða fæti fyrir okkur. Í málflutningi þeirra virðist satt og rétt stundum engu máli skipta. Tilgangurinn virðist helga meðalið.

Vestfirskur fjölmiðill eins og BB á og getur haft áhrif á sameiginlega baráttu okkar. Við eigum að sameinast um að styrkja útgáfu BB og halda fjölmiðlinum ofan við dægurþras og hrepparíg og berjast þannig saman fyrir hagsmunum Vestfjarða.

-Gunnar

DEILA