Nýr leikskóli í Bolungarvík

Leikskólinn Glaðheimar í Bolungarvík

Í lok síðustu viku var auglýst útboð vegna endurbóta og stækkunar á leikskólanum Glaðheima við Hlíðarstræti í Bolungarvík. Um er að ræða 307 fermetra nýbyggingu auk þess sem algjörar endurbætur eru gerðar á núverandi leikskólahúsnæði. Framkvæmdir hefjast í sumar og á verkinu að vera að fullu lokið 1. mars 2020. Nýr leikskóli mun bjóða upp á aðstæður eins og best verður á kosið fyrir leikskólabörn og starfsfólk og hægt verður að bjóða mun fleiri og yngri börnum leikskólavist.

Brýn þörf fyrir stærri leikskóla

Öllum má vera ljóst að þörfin fyrir stærri leikskóla í Bolungarvík er bæði augljós og knýjandi. Undanfarin 10 ár hafa elstu börn leikskólans verið í bráðabirgða húsnæði í Lambhaga sem er ekki hannað sem leikskóli og eru aðstæður þar óviðunandi, bæði fyrir börn og starfsfólk. Tvær yngstu deildir leikskólans hafa hins vegar verið á Glaðheimum við Hlíðarstræti í húsnæði sem er hannað sem leikskóli og hefur reynst vel til þeirrar starfsemi.

Á undanförnum árum hefur sú ánægjulega þróun orðið að börnum á leikskólaaldri hefur fjölgað í Bolungarvík. Þá er fyrirsjáanlegt að krafan um að taka börn inn á leikskóla við 12 mánaða aldur í stað 18 mánaða aldurs mun aukast. Því er afar mikilvægt fyrir þróun og vöxt byggðar í Bolungarvík að sveitarfélagið geti boðið barnafjölskyldum upp á næg leikskólapláss.

Stækkun Glaðheima ákveðin árið 2014

Stækkun leikskólans Glaðheima við Hlíðarstræti hefur verið á dagskrá í töluverðan tíma.  Árið 2012 skilaði nefnd á vegum bæjarins niðurstöðu um staðarval vegna leikskóla og var stækkun Glaðheima talin ákjósanlegasti kosturinn eftir að búið var að meta aðra valkosti. Endanleg samþykkt um staðsetningu viðbyggingar leikskólans var tekin af bæjarstjórn í apríl 2014 og frá þeim tíma hefur verið unnið að því að fullvinna hönnun, vinna deiliskipulag og undirbúa útboð verksins.

Hagsmunir leikskólabarna í fyrirrúmi

Þegar tekin var ákvörðun um hvar framtíðarstaðsetning leikskóla í Bolungarvík var horft til margra þátta og málin skoðuð ofan í kjölinn. Ákvörðun um stækkun leikskólans Glaðheima var fyrst og fremst tekin með hagsmuni notenda leikskólans í huga, bolvískra leikskólabarna. Bæði í aðbúnaði innanhúss sem og í gæðum útileiksvæðis. Einnig var horft til að þess að nýr leikskóli myndi bjóða upp á gott umhverfi fyrir starfsfólk og að allur aðbúnaður starfsmanna væri sem bestur. Að lokum var horft til fjárhagslegra þátta því okkur ber skylda til þess að fara vel með fjármuni hins almenna bæjarbúa. Ákvörðunin um að stækka leikskólann Glaðheima byggði í meginatriðum á þessum þremur þáttum og er ánægjulegt að geta hafið byggingu á leikskóla sem í senn þjónar best hagsmunum leikskólabarna, starfsfólks og hins almenna bæjarbúa.

Minni gæði og meiri kostnaður við Lambhaga

Að undanförnu hefur verið í umræðunni að hugsanlega hefði verið betra að byggja upp nýjan leikskóla í Lambhaga, við hlið grunnskólans og íþróttamiðstöðvarinnar. Þessi leið var skoðuð árið 2012 en var ekki talinn ákjósanlegur valkostur fyrir leikskóla. Þar liggja nokkrir þættir til grundvallar. Í fyrsta lagi er núverandi húsnæði í Lambhaga ekki hannað sem leikskóli og reynslan hefur sýnt að það hentar illa sem leikskóli. Þar þyrfti einnig að byggja stóra nýbyggingu til að rúma allan leikskólann. Ólíklegt er að leikskólahúsnæði í Lambhaga yrði betra að gæðum en núverandi húsnæði við Hlíðarstræti og er of mikil áhætta fólgin í umbreytingu á húsnæði sem nú þegar hefur sýnt sig að er óhentugt fyrir leikskóla. Lóðin í Lambhaga er einnig of lítil og óhentug fyrir leikskóla og þyrfti að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir til að fá leikskólalóð af sömu gæðum í líkingu við þá lóð sem þegar er til staðar við Glaðheima. Ljóst er að uppbygging í Lambhaga yrði alltaf dýr og er kostnaðurinn þar að lágmarki 100 milljónum króna meiri en við uppbyggingu á Glaðheimareitnum við Hlíðarstrætið. Að verja 100 milljónum meira í framkvæmd án þess að fá fyrir það aukin gæði fyrir börn eða starfsfólk væri afleit ákvörðun. Þá verða þessar 100 milljónir ekki nýttar í aðrar brýnar framkvæmdir á borð við malbikun, hafnarframkvæmdir eða viðhald á fasteignum bæjarins.

Einhverjir hafa haldið því fram að leikskóli sem sé staðsettur við hlið grunnskólans skapi samlegðaráhrif í rekstri og að þannig verði til hagræði í rekstri bæjarins. Það er ekki rétt. Þó leikskóli væri staðsettur í Lambhaga hefði það engin áhrif á fjölda starfsmanna í grunnskólanum eða í leikskólanum í samanburði við að leikskólinn sé staðsettur við Hlíðarstræti, sem er reyndar einnig aðeins spölkorn frá grunnskólanum eða í um 500 metra fjarlægð. Þannig yrði launakostnaður sá sami, hvor leiðin sem væri farin, og sparnaður enginn.

Bygging sem skerðir útsýni nágranna

Á það hefur verið bent að viðbyggingin við leikskólann Glaðheima skerði útsýni frá húsinu sem stendur við hlið leikskólalóðarinnar og verið sé að ganga á rétt íbúanna sem þar búa og hafa þeir barist gegn byggingunni á þeim forsendum. Það er alltaf óheppilegt fyrir bæjarfélag að standa í deilum við íbúa um framkvæmdir. Hins vegar er vert að taka fram að Skipulagsstofnun er búin að staðfesta deiliskipulag sem gerir ráð fyrir umræddri byggingu og er Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála búin að staðfesta deiliskipulagið með úrskurði sínum eftir að deiliskipulagið var kært. Það er hins vegar ekki útilokað að bæjarfélagið sé að valda íbúunum tjóni og ef svo er þá að það skylda bæjarins að bæta það tjón. Okkar verkefni er að komast að því, í samvinnu við íbúana, hvert tjónið er og það mun ekki standa á okkur að bæta það tjón sem sýnt hefur verið fram á að bæjarfélagið sannarlega valdi.

Besti kosturinn fyrir Bolungarvík

Stóra myndin er sú að uppbygging leikskóla við Glaðheima er besta mögulega niðurstaðan fyrir samfélagið í heild sinni. Hún gerir Bolungarvík samkeppnishæfa um fólk sem vill sannarlega flytja til bæjarins og tryggja að hér muni áfram byggjast upp kröftugt og öflugt samfélag. Góð þjónusta við barnafólk er lykillinn að því að laða nýtt fólk til búsetu í Bolungarvík.

Baldur Smári Einarsson

Formaður bæjarráðs Bolungarvíkur

DEILA