Mikilvæg ráðstefna fyrir Vestfirði

Ráðstefnan Strandbúnaður verður haldin á Grand Hótel, dagana 19. – 20. mars. Strandbúnaður er félag til að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir, þróun og stefnumótun greinarinnar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu. Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða.

Hér er um mikilvægt mál að ræða fyrir Vestfirðinga, sem líta nú til laxeldis sem helstu von um viðsnúning til sóknar fyrir fjórðunginn. Laxeldi er þekkingargrein sem byggir lítið á auðlindanotkun. Það er reynsla Norðmanna að greinin greiði há laun og sæki mikið í vel menntað og hæft starfsfólk. Margir Vestfirðinga horfa til laxeldis til að byggja upp öflugt atvinnulíf á Vestfjörðum, sem gæti laðað til sín ungt og hæfileikaríkt starfsfólk, og aukið breidd í atvinnulífi fjórðungsins.

Margir Vestfirðingar halda erindi á ráðstefnunni og má þar nefna Kristján Leósson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, ,Pétur Markan sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, Sigríði Gísladóttur hjá Mast, Neil Shiran Þórisson hjá Arctic Fish, Stein Ove Tveiten hjá Arctic fish og Víðir Ingþórsson hjá North Atlantic Fisksölu.

Nafnið Strandbúnaður er nýyrði, með vísan í orðið Landbúnaður fyrir eldi og ræktun á sjávarfangi, en orðið er þýðing á orðinu Aquaculture í ensku.

-Gunnar

DEILA