Konungleg Sólrisa

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði sýnir um þessar mundir í Edinborgarhúsinu, söngleikinn Konung ljónanna, sem byggður er á samnefndri Disney mynd, með tónlist eftir Elton John og Hans Zimmer. Sýningin er samstarfsverk Leikfélags MÍ og Tónlistarskóla Ísafjarðar. Leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir, hljómsveitarstjórn er í höndum Beötu Joó og danshöfundur er Henna Rikka Nurmi. Tónlistarstjóri sýningarinnar er Pétur Ernir Svavarsson sem að auki fer með hlutverk Simba og er formaður Leikfélags MÍ.

Leiksýningar Menntaskólans á Ísafirði á Sólrisuhátíð eru fyrir löngu orðinn fastur punktur í menningarlífi bæjarins. Á síðustu árum hefur Sólrisuhátíðin orðið meira að innanhússhátíð skólans, en leiksýningin opnar þó alltaf dyr almennings að björtustu vonum Vestfirðinga – unga fólkinu. Í gegnum tíðina hefur tónlist ávallt spilað stórt hlutverk í uppsetningum LMÍ, enda ekki langt að sækja marga hæfustu tónlistarmenn landsins á flestum sviðum, hvort sem það eru kennarar eða nemendur tónlistarskólanna á norðanverðum Vestfjörðum. Ýmist hafa leikendur þurft að bresta í söng í hefðbundum leikhússtykkjum til að brjóta upp erfiðan texta eða hreinir söngleikir hafa verið settir á svið.

Að þessu sinni bjóða nemendur Menntaskólans upp á stórt samstarfsverkefni við Tónlistarskólann á Ísafirði, sjálfan Konung ljónanna – Hamlet teiknimyndanna segja sumir. Disneymyndin Konungur ljónanna kom út árið 1994, en þá voru fæstir þátttakenda fæddir, en margir áhorfenda af eldri kynslóðum þekkja eflaust textana út og inn. Óhætt er að segja að þetta verkefni sé metnaðarfullt. Varla líður mínúta án þess að nokkur syngi, dansi, öskri eða sveifli sér í reipum. Engin hlutverk eru lítil eða til uppfyllingar – hver einasta hýena, ljón, fugl, api, svín (ungfrú svín) og desköttur þarf að sýna sitt besta í sönghæfileikum og samhæfingu á söng og dansi. Leikritið reynir á allt það sem prýða þarf góða leikara. Líkamleg tjáning, jafnt sem framsögn er upp á punkt og prik svo að töfrarnir skila sér í salinn. Óþarft er að telja upp öll nöfn og hlutverk, því sýningin í heild kallar fram gæsahúð og tár. Öll tónlist er flutt lifandi af stórri hljómsveit Tónlistarstskóla Ísafjarðar og gæti hvaða atvinnuleikhús verið stolt af frammistöðu þeirra sem að sýningunni koma.

Sýningin hentar öllum aldurshópum, frá tveggja til 110 ára.

Næstu sýningar eru:

6. sýning- 10.mars kl. 20

7. sýning- 11.mars kl. 16

8. sýning- 11.mars kl. 20

Miðapantanir eru í síma: 450-5555

DEILA