Golfklúbbur Ísafjarðar opnar nýja æfingaaðstöðu

Golfklúbbur Ísafjarðar opnaði nýja glæsilega æfingaaðstöðu við Sundahöfn á Ísafirði og var henni gefið nafnið Sundagolf. Formaður klúbbsins, Kristinn Þórir Kristjánsson ávarpaði gesti við þetta hátíðlega tilefni.

 

Klúbburinn festi kaup á nýbyggingu síðastliðið haust og hafa félagar unnið hörðum höndum við innréttingar og uppsetningu búnaðar. Golfklúbburinn hefur haft aðstöðu hjá Skaginn3X undanfarna tvo vetur fyrir golfhermi og púttvöll, sem nú er flutt í Sundagolf.

Þetta er stór áfangi fyrir golfklúbbinn og gerbreytir allri iðkun íþróttarinnar fyrir golfara. Tímasetningin er viðeigandi en klúbburinn á 40 ára afmæli í ár. Það var einn af stoðum klúbbsins, Finnur Magnússon, sem afhjúpaði nafnið á nýju aðstöðunni í gærkvöldi. Yfir fimmtíu gestir  mættu til að fanga þessum áfanga með Golfklúbbi Ísafjarðar. Kristján Andri Guðjónsson færði klúbbnum peningagjöf við tækifærið frá útgerðafélaginu Öngli ehf.

Golfhermirinn er af nýjustu gerð og geta menn valið um marga af frægustu golfvöllum heimsins til að spila golf. Hann er opinn almenningi gegn sanngjörnu gjaldi en púttflötin er aðeins ætluð félögum í G.Í.

Í vetur hefur Auðunn Einarsson PGA golfkennari verið með kennslu í nýju aðstöðunni og hefur fjöldi núverandi og verðandi golfara nýtt sér leiðsögn hans.

 

 

DEILA