Framkvæmdir gætu hafist í sumar

Ísafjarðarbær stóð fyrir samráðfundi í hádeginu í dag vegna áforma um að byggja við íþróttahúsið á Torfnesi. Viðbyggingin á að hýsa líkamsræktarstöð. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir fulltrúum íþróttafélaga, kennara, nefndarfólki bæjarins og öðrum sem kynnu að hafa skoðanir á málinu hafi verið boðið til fundarins.

Frumteikningar af viðbyggingunni voru kynntar á fundinum, en viðbyggingin kemur ofan á þak núverandi anddyris íþróttahússins.

Gísli Halldór segir líklegt að málið verði tekið fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar og þar verði lagt til að láta fullhanna viðbygginguna. Gísli Halldór gerir ráð fyrir að fullhönnun kosti á bilinu 35 til 40 milljónir króna.

„Ef bæjarstjórn samþykkir að ráðast í fullhönnun þá þýðir það framkvæmdir geta hafist í sumar eða í haust og þetta er á fjárfestingaráætlun 2018 og 2019,“ segir Gísli Halldór.

Teikning af framhlið íþróttahússins með viðbyggingunni.
DEILA