Bjóða upp á skapandi vinnu fyrir ungmenni

Það verður seint sagt að Leikfélag Hólmavíkur sitji nokkurn tíman auðum höndum. Nú sem fyrri vetur eru leikfélagar í ströngum æfingabúðum fyrir verk sem til stendur að setja upp, en í sumar munu þau bjóða upp á spennandi nýjung fyrir ungmenni í Strandabyggð. Þessi nýjung kallast Strandir í verki og felst í því að unglingar geta sótt um launaða vinnu við listsköpun. „Hugmyndin er sú að ungt og upprennandi listafólk geti þróast í starfi í heimabyggð, fengið stuðning við starf á sínu áhugasviði, auðgað mannlífið og um leið sannfærst um að hægt sé að starfa við fjölbreytta og skapandi iðju í heimabyggðinni,“ segir verkefnastjórinn Esther Ösp Valdimarsdóttir í samtali við BB.is. „Umsækjendur þurfa að vera fæddir á árunum 00-04, eiga foreldra/ forráðamenn búsetta í Strandabyggð og hafa áhuga á störfum á sviði lista og menningar, hvort heldur sem er að koma fram, skapa eða sinna tækni- og markaðslegum hliðum listrænan verkefna. Þau sem valin verða til starfsins hljóta síðan vinnuskólalaun fyrir sitt framlag,“ segir hún ennfremur.

Strandir í verki kom til að frumkvæði Leikfélags Hólmavíkur en er unnið í samstarfi við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í Þjóðfræði, Sauðfjársetur á Ströndum og Strandabyggð, auk þess að verkefnið hefur fengið styrki frá Fjórðungssambandinu og Sparisjóði Strandamanna. Rakel Ýr hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi verkefnisins en hún er nemi á Leiklistarbraut Listaháskóla Íslands og upprennandi leik- og listakona.

-Sæbjörg

sabjorg@gmail.com