Að glæða kristni og kirkjulíf

Ég hef lengi haft brennandi áhuga á því að efla kirkjuna okkar. Margir af gömlu prestunum töluðu um nauðsyn þess að glæða kristni og kirkjulíf. Við þurfum ekki að efast um kristna trú en við þurfum að hlú alveg sérstaklega vel að kirkjulífinu í hverri sókn. Í kirkjunni þurfum við að vinna saman að því að sækja kirkjuna vel og styðja safnaðarstarf, boðun og helgihald á helgum og hátíðum og þá ekki síst barna- og æskulýðsstarf að ógleymdu gagnmerku starfi kvenfélaga og starfi margra góðra kóra og organista. Kirkjulíf stendur nær okkur en við höldum ef við reiknum líka með sálgæslu og áfallahjálp sem oftast er starfrækt út frá heilbrigðisstofnunum í héraðinu. Oft koma prestar sóknarinnar að því eða prestar og djáknar með sérmenntun á sviði klínískrar sálgæslu. Í öllu því starfi er unnið út frá trúarreynslu og velferð manneskjunnar og ekki er spurt um trúfélagsaðild. Við erum einfaldlega í sameiginlegri vegferð í þessu samfélagi sem mótast af kristinni trú og öðrum þáttum í menningararfi þjóðarinnar.

Ef kirkjan ætlar að þjóna þessu hlutverki sínu áfram þarf hún að leggja höfuð áherslu á að efla innra starf safnaðanna og þjónustu sína í sóknum landsins og á stofnunum eða í samstarfi við skóla, heilbrigðisstofnanir og félagasamtök. Kirkjan þarf að efla starfsmannastefnu sína, vera til fyrirmyndar í samskiptum fólks, jafnréttismálum og stjórnsýslu. Vekja þarf fólk til umhugsunar um loftlagsmál og umhverfi sitt út frá velferð manneskjunnar og samfélagsins. Félagslegur auður kirkjunnar felst í því fólki sem er viðriðið þjónustu hennar á hverjum stað og í stoðþjónustu kirkjunnar við starfið á vettvangi fólksins.

Núna er farið aftur af stað með nýja kosningu til vígslubiskups í Skálholti og skulum við vona að það takist betur til með formsatriðin. Ég trúi því að kirkjan vilji gera vel. Við viljum öll gera vel. Eftir að ég hlaut aftur tilnefningu presta og djákna í febrúar býð ég mig fram til starfa í þágu safnaðanna í umdæmi vígslubiskups í Skálholti. Umdæmið nær frá Hafnarprestakallli og suður og vestur um land allt norður til Stranda og vestur til Bolungarvíkur. Vesturlandið og allir Vestfirðir eru hér með og einnig Höfuðborgarsvæðið og Suðvesturhorn landsins. Fólkið sem kýs er fólkið í kjörnefndum prestakallanna á svæðinu, prestar og djáknar og er kosið í póstkosningu 9. – 21. mars.

Það sem heillar mig mest við þetta starf eru þau beinu tengsl sem gert er ráð fyrir að vígslubiskup hafi við hverja sókn. Starfsvettvangur hans er að vera í þessum tengslum og rækta þau í gegnum boðun, helgihald og safnaðarstarf. Ég vil vinna með því fólki sem vinnur að því að glæða kristni og kirkjulíf. Það er vel hægt með því að heimsækja söfnuði og setja sig inní aðstæður á hverjum stað. Það er hægt með góðum tengslum, ráðgjöf og fræðslu. Það er hægt með því að vinna að endurmenntun og öðru sem getur komið í veg fyrir þreytu eða kulnun í starfi og alltaf má bæta vinnuaðstöðu og skipulag á vinnutíma og viðveru. Það gefur mikinn kraft ef hægt er að auka sjálfboðastarf og styrkja sjálfboðaliðana af því að það er bara meira gaman þar sem fleiri koma saman að verki. Svo þarf að vinna aftur skerðinguna á sóknargjöldum því það er rekstrarfé safnaðanna á sama hátt og gildir um öll trúfélög.

Ég vil gjarnan fá að vinna að þessu með Guðs hjálp og öllum þeim sem vilja efla kirkjuna innanfrá og styrkja það starf sem nýtur mestrar virðingar hjá þjóðinni. Þess vegna gef ég kost á mér og kem með mína reynslu sem ég lýsi á heimasíðunni KristjánBjörnsson.is og kem fram með dyggum stuðningi konu minnar, Guðrúnar Helgu Bjarnadóttur. Ég vil fá að vinna að þessu öllu út frá Skálholti og með aðsetur þar enda er brýnt að efla þann helga stað með guðsþjónustu, fundum, fræðsludögum og uppbyggilegri samveru, aukinni kynningu og þjónustu við ferðafólk og skólahópa og ekki síst með rækt við kyrrðardaga og tónlistarlíf. Það er von mín að kirkjunni takist vel til.

Sr. Kristján Björnsson:

 

DEILA