Víkur sæti í máli Hvalárvirkjunar

Umhverfisráðherra víkur sæti í fjórum málum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur ákveðið að víkja sæti við meðferð og ákvörðun í fjórum málum sem hann kom að í fyrra starfi sem framkvæmdastjóri Landverndar. Eitt málanna er erindi Landverndar þar sem farið er fram á að umhverfisráðuneytið fjalli um lögmæti álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar.

Hin málin eru kæra Landverndar vegna meints skorts á eftirliti Umhverfisstofnunar með framkvæmdum Landsnets vegna Bakkalína, umsóknir Landverndar um verkefnastyrki til ráðuneytisins frá því í fyrra og erindi nokkurra landeigenda í Mývatnssveit vegna fyrirhugaðra friðlýsinga á jörð þeirra.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mun bera það upp við forseta Íslands að Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, taki við málunum. Svandís er vel kunnug ráðuneytinu en hún var umhverfisráðherra á árunum 2009 til 2013.

DEILA