Útilokar slysasleppingu

Víkingur Gunnarsson. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir útilokað fiskur hafi sloppið úr kvíum Arnarlax í Tálknafirði og Arnarfirði. Tvær kvíar skemmdust í síðustu viku og hefur nokkuð verið fjallað um það í fjölmiðlum. Annars vegar brotnaði flothringur í kví í Tálknafirði og hins vegar uppgötvuðust göt á nót einnar kvíar í Arnarfirði. Víkingur segir að götin hafi verið það smá og þannig staðsett að fiskur hafi ekki getað komist út um þau. Skemmdirnar komu í ljós við reglulegt eftirlit og kvíin í Tálknafirði var tæmd af fiski og kafari myndaði kvína í Arnarfirði og gerði við göt.

Atvikin voru tilkynnt til Matvælastofnunar og Fiskistofu en ekki til Umhverfisstofnunar og hefur forstjóri Umhverfisstofnunar gagnrýnt það. Víkingur segir að í leyfum Arnarlax sé ekkert sem segir að frávik þessa eðlis eigi að tilkynnast til Umhverfisstofnunar. „Ef það er misskilningur þá biðjumst við afsökunar á því og þá verður það gert framvegis.“

Víkingur leggur áherslu á að atvikin voru tilkynnt til Matvælastofnunar og Fiskistofu um leið og þau uppgötvuðust. „Við getum ekki gert neitt í því að stofnanirnar meta það svo að senda ekki eftirlitsmenn á staðinn strax enda hefur veður og færð á vegum ekki verið upp á það besta og erfitt að komast á milli.“

Aðspurður um ástæðu þess að flothringurinn í Arnarfirði brotnaði segir Víkingur það vera spurningu sem hann spyr sjálfan sig. „Við tökum þetta alvarlega og þetta er hlutur sem við ætlum að rannsaka og fáum til þess óháðan rannsóknaraðila. Aðalatriði málsins eru að það varð engin slysaslepping, ekkert mengunarslys, engin leyndarmál og allt tilkynnt til stofnana um leið,“ segir Víkingur.

DEILA