Toppslagur í kvöld

Það verður sannkallaður toppslagur í íþróttahúsinu á Torfnesi í kvöld þegar Vestri og Hamar mætast í 1. deild Íslandsmótsins í körfubolta. Þetta er síðasti heimaleikur Vestra í deildarkeppninni en liðið hefur tryggt sig áfram í úrslitakeppni um hvaða lið fara upp um deild.

Hamarsmenn sitja í fjórða sæti deildarinnar en Vestramenn í öðru sæti. Þessi staða segir þó ekki alla söguna því í raun munar aðeins einum sigri á liðunum auk þess sem Hamar á leik til góða gegn botnliði ÍA. Leikurinn hefur því mikið vægi og gæti til dæmis skorið úr um hvort liðið öðlast heimavallaréttinn í úrslitakeppninni framundan.

Liðin hafa mæst tvívegis í vetur. Vestri sigraði í fyrri leiknum hér heima með 12 stiga mun í nóvember en Hvergerðingar náðu að hefna á heimavelli í byrjun janúar með eins stigs sigri. Sigurvegarinn í kvöld mun því standa betur að vígi í innbyrðis viðureignum.

Vestramenn sigruðu Fjölni á útivelli síðastliðinn mánudag og sýndu að þeir eru ekki af baki dottnir þótt þeir sakni miðherjans sterka Nemanja Knezevic sem er frá í bili vegna meiðsla.

Leikurinn í kvöld hefst kl. 19:15

DEILA