Taka höndum saman og efla byggð á Þingeyri

Nýr starfsmaður Vestfjarðastofu mun hefja störf á Þingeyri 1. sept.

Helgina 10. – 11. mars er íbúum á Þingeyri og öðrum sem hafa tengsl við staðinn, boðið til íbúaþings í Félagsheimilinu á Þingeyri. Með þinginu hefst verkefni þar sem Byggðastofnun, Ísafjarðarbær, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Vestfjarðastofa og síðast en ekki síst íbúar, taka höndum saman til að efla byggð á Þingeyri. Fulltrúar þessara aðila skipa verkefnisstjórn.

Þingið stendur í tvo daga og er ekki fyrirfram mótuð dagskrá, heldur geta allir viðstaddir stungið upp á umræðuefnum, sem síðan eru rædd í smærri hópum. Aðferðin kallast opið rými og á sér rúmlega 30 ára sögu og hefur gefist vel á íbúaþingum sem þessu. Umsjón með íbúaþinginu hefur Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ILDI.

Dagskráin stendur frá kl. 11 til 16 á laugardeginum 10. mars og frá kl. 11 – 15, sunnudaginn 11. mars. Að þingi loknu á sunnudag verður boðið upp á kaffiveitingar og meðan á þinginu stendur verður séð til þess að allir hafi nóg að bíta og brenna. Ekki er nauðsynlegt að vera með alla helgina, heldur er hægt að taka þátt í skemmri tíma.

Hugmyndir og ábendingar sem koma fram á íbúaþinginu verða ásamt stöðugreiningu efniviður fyrir verkefnisáætlun með framtíðarsýn og markmiðum fyrir byggðaþróunarverkefni á Þingeyri, sem staðið getur í allt að fjögur ár. En framhaldið er ekki bara í höndum verkefnisstjórnar, heldur munu íbúar vonandi leggjast á árarnar líka, til að láta hugmyndir verða að veruleika.

Raddir íbúa og frumkvæði skipta miklu máli í þeirri vinnu sem nú er framundan og eru allir sem láta sig málefni Þingeyrar varða, hvattir til að fjölmenna til íbúaþingsins.

DEILA