Svæðistónleikar Nótunnar í Hömrum

Nótufarar Tónlistarskóla Ísafjarðar árið 2013.

Svæðistónleikar Nótunnar 2018 fyrir Vesturland og Vestfirði verða haldnir í Hömrum á morgun, laugardaginn 24. febrúar kl. 14. Á tónleikunum verða flutt fjölbreytt tónlistaratriði, bæði einleikur og samleikur en nemendurnir sem koma fram eru á öllum námsstigum, grunnstigi, miðstigi og framhaldsstigi.

Valnefnd velur þrjú atriði tónleikanna til þess að koma fram á lokahátíð Nótunnar sem fram fer í Eldborgarsal Hörpu þann 4. mars. Vestfirðingar hafa þar átt glæsilega fulltrúa undanfarin ár og því verður spennandi að sjá hvaða hljóðfæranemendur verða valdir til þátttöku að þessu sinni.

Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir. Tónleikarnir munu standa í u.þ.b. klukkustund og í kjölfarið verður boðið upp á kaffi og djús á meðan valnefndin ræður ráðum sínum.

Þessa dagana fara svæðistónleikar Nótunnar fram á fjórum stöðum á landinu og því má segja að Nótan sé eins konar uppskeruhátíð tónlistarskólanna í landinu. Nótunni er ætlað að vera bæði hvatning í starfi skólanna og vekja athygli á því mikla og blómlega starfi sem fram fer í tónlistarskólum landsins.

DEILA