Stuðningurinn er ómetanlegur

Síminn hefur verið rauðglóandi hjá Eggert Einer Nielson síðasta sólarhringinn, eða frá því hann lýsti á bb.is raunum sínum í samskiptum við Útlendingastofnun og synjun Alþingis á beiðni hans um ríkisborgararétt. Nær allir fjölmiðlar landsins hafa greint frá máli Eggerts. „Ég bjóst ekki við þessum viðbrögðum, aldrei í lífi mínu. Og að finna þennan stuðning frá samfélaginu hér fyrir vestan og um allt land er ómetanlegt,“ segir Eggert.

Æðsti draumur Eggerts nú sem fyrr er að fá íslenskt ríkisfang og geta sest hér að fyrir fullt og allt án nokkurra málalenginga. „Mér fannst beiðni mín um ríkisborgararétt ekki vera beiðni um eitthvað sem ég á ekki rétt á og það hefur komið í ljós að fólkið hér er sammála mér,“ segir hann.

En er hann bjartsýnn að málið fái farsæla lendingu?

„Miðað við það sem ég orðið vitni að í gær og í dag, eftir að það var byrjað að fjalla um þetta, þá er ég mun bjartsýnni en ég var. Mér líður mun betur með þetta í dag.“

DEILA