Stórtónleikar Tónlistarskólans

Tónlistarskóli Ísafjarðar verður með Stórtónleika í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 18. febrúar kl. 16. Fresta þurfti tónleikunum um síðustu helgi vegna slæmrar veðurspár, en nú virðast veðurguðirnir ætla að vera tónleikhöldurum hliðhollir um helgina.

Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg og koma þar fram stærri samspils og sönghópar skólans. Að þessu sinni gegna lúðrasveitir og kórar skólans stóru hlutverki á tónleikunum. Unglingasöngdeildin syngur tvö lög ásamt þeim Kötlu Vigdísi og Ásrósu í Between Mountains, annað lagið er sérstaklega samið af þessu tilefni og því frumflutningur. Svava Rún Steingrímsdóttir flytur atriðið sem sigraði í Samvest söngkeppninni á dögunum. Nemendur frá útibúi skólans Þingeyri koma fram í rytmísku samspili. Hápunktur tónleikanna er þó Ísófónían sem leikur og syngur 2 lög undir stjórn Madis Mäekalle. Í Ísófóníunni leiða saman hesta sína stór hluti nemenda frá öllum starfsstöðvum Tónlistarskóla Ísafjarðar (Ísafirði, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri) svo úr verður heilmikil hljómkviða flutt af gleði og ánægju.

Á Íslandi starfa nú um 90 tónlistarskólar. Hjá þeim starfa um 900 kennarar og nemendur eru um 15.000 talsins. Fyrstu lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla voru sett 1963 og er nú kennt eftir samræmdum námsskrám sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur út. Í skólunum eiga nemendur kost á fjölbreyttu tónlistarnámi og gegna skólarnir mikilvægu hlutverki í menningarlífi hvers byggðarlags.

Tónlistarskóli Ísafjarðar er einn af elstu skólum landsins. Nemendur hans og kennarar koma fram við ótal mörg tækifæri og setja svo sannarlega svip sinn á menningarlíf í Ísafjarðarbæ. Skólinn hefur ávallt notið velvilja bæjarbúa og bæjaryfirvalda og býður alla hjartanlega velkomna á tónleikana nú sem fyrr.

Aðgangseyrir að tónleikunum er 500 krónur og rennur hann óskiptur til hljóðfærakaupa. Frítt fyrir börn undir 18 ára og ellilífeyrisþega.

DEILA