Stefna að inntöku nema í haust

Aðalfundurinn var vel sóttur.

Lýðháskólinn á Flateyri stefnir að inntöku nema strax í haust. Á laugardaginn var aðalfundur skólans haldinn og sóttu hann 75 manns.

Á fundinum kynnti Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðháskólans á Flateyri, verkefnið, tildrög þess og framvindu á fyrsta starfsári félagsins ásamt því að nýr framkvæmdastjóri félagsins, Helena Jónsdóttir, kynnti helstu áherslur og áform á næstu mánuðum.

Á næstu mánuðum mun framkvæmdastjóri, í samvinnu við stjórn, fagráð og ýmsa samstarfs- og stuðningsaðila, vinna að því að útfæra nánar námsframboð og aðra þætti sem snúa að því að gera skólann tilbúinn að taka við nemendum á 1-2 námsbrautir í haust.

Stór þáttur í þeirri vinnu er fjáröflun en aðeins hluti af því fjármagni sem til þarf hefur verið tryggður. Enn vantar nokkuð upp á og eru styrkumsóknir til opinberra og einkaaðila forgangsmál eins og er.

Á aðalfundi voru stofnuð samtök hollvina Lýðháskólans á Flateyri. Nú þegar hafa 55 einstaklingar skráð sig fyrir mánaðarlegum fjárframlögum til félagsins.

Í tilkynningu segir að þótt ekki sé um háar upphæðir að ræða hjá hverjum og einum er þessi stuðningur félaginu afar mikilvægur, ekki síst sem tæknrænt merki um þann velvilja og áhuga sem verkefnið nýtur á svæðinu.

„Við viljum bjóða fleirum, stofnfélögum Lýðháskólans á Flateyri og öðrum velunnurum, að skrá sig fyrir mánaðarlegum eða einstökum fjárframlögum. Viljir þú sýna velvilja í verki getur þú sent nafn þitt og kennitölu og þá mánaðarlegu eða einstöku upphæð sem þú vilt láta af hendi rakna á helenajons@gmail.com og á móti kemur að valgreiðslukrafa verður send í heimabanka þinn.“

DEILA