Skaginn 3X opnar skrifstofu í Bodø

Starfsstöð Skagans 3X á Ísafirði.

Innan skamms opnar tæknifyrirtækið Skaginn 3X söluskrifstofu í Bodø í Noregi. Til að byrja með verður einn starfsmaður á skrifstofunni, Ísfirðingurinn Magni Veturliðason sem hefur um árabil verið búsettur í Noregi. Hann segir í samtali við norska vefmiðilinn kyst.no að frekari mannaráðningar verða þegar skrifstofan hefur fest sig í sessi. Til að byrja með mun skrifstofa Skagans 3X í Bodø njóta aðstoðar frá starfsmönnum fyrirtækisins á Íslandi bæði með sölu og tilboðsgerð. „Starfsfólk Skagans 3X á Íslandi mun svo sjá um alla uppsetningu á búnaði,“ segir Magni.

Magni Veturliðason.

Að sögn Magna er áætlun Skagans 3X að einblína í frekari mæli á sölu til norskra fyrirtækja, bæði í laxeldi og í hefðbundnum sjávarútvegi.

„Við höfum selt vörur til Noregs beint frá Íslandi, en með því að skjóta rótum hér ætlum við að fá betri aðgang að norska markaðnum með allar vörulínur okkar.“

DEILA